Eftirlitsskyldur lögreglu ríkar

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Starfsemi svonefndra kampavínsklúbba lýtur lögum og er leyfisskyld. Innan veggja þessara staða þarf að fara að lögum og sé brotalöm á því verður á því tekið. Þetta kom fram í máli Ólafar Nordal innanríkisráðherra í sérstakri umræðu um starfsemi kampavínsklúbba á Alþingi í dag.

Ólöf sagði að í málaskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, frá 2011 til dagsins í dag, hefðu 207 verkefni sem tengjast klúbbum af þessu tagi verið skráð. Fyrst og fremst væri um að ræða eftirlitsferðir með veitingastöðum og skemmtistöðum. Sextíu og fjögur brot hefðu verið skráð, þar af tólf kynferðisbrot.

Hún nefndi jafnframt að þeir staðir, sem hér væru til umræðu, væru leyfisskyldir samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Lögreglustjóri hefði eftirlit með því hvort lögunum væri fylgt. Ríkar eftirlitsskyldur hvíldu því á lögreglu.

Samkvæmt lögunum væri jafnframt hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar á þessum stöðum né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Ólöf benti á að það væri ekkert í lögum sem heitir kampavínsklúbbar, engin skilgreining væri fyrir hendi. Hins vegar væri lagt almennt bann við að bjóða upp á nektarsýningar á veitingastöðum, eins og áður sagði.

Þá hefði mikil vitundarvakning verið í samfélaginu um vændi og mansal seinustu misseri og ríkari áhersla lögð á þessa málaflokka, meðal annars af hálfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld ynnu eftir ákveðinni aðgerðaáætlun í baráttunni gegn mansali. Því miður hefðum við séð dæmi um mansal að undanförnu, þá gagnvart erlendu verkafólki, nokkuð sem við gætum aldrei sætt okkur við. Brot sem þessi væru algjörlega ólíðandi – þingið væri mjög skýrt um það.

Frétt mbl.is: Stemmi stigu við kampavínsklúbbum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert