Ekki þörf á frekari eiginfjárframlögum

Framkvæmdastjórum fækkar um einn og sex starfsmönnum verður sagt upp.
Framkvæmdastjórum fækkar um einn og sex starfsmönnum verður sagt upp. mbl.is/Golli

Endurskoðuð áætlun Íbúðalánasjóðs gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu og engum frekari eiginfjárframlögum ríkisins. Framkvæmdastjórum fækkar um einn og sex starfsmönnum verður sagt upp í tengslum við skipulagsbreytingar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði. Þar segir einnig að rekstrarkostnaður muni lækka um 320 þegar aðgerðir verða að fullu komnar til framkvæmda á árinu 2017 og verði 1.550 milljónir.

Fyrirhugaðar breytingar voru kynntar starfsfólki í morgun.

„Skipulagsbreytingarnar munu hafa jákvæð áhrif á reksturinn og eru rökrétt framhald af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til að undanförnu til að bæta afkomu sjóðsins, s.s. með sölu eigna, þ.m.t. Leigufélagsins Kletts, lækkun rekstrarkostnaðar og bættri ávöxtun uppgreiðslufjármuna með fjárfestingum í verðtryggðum eignum. Í kjölfarið er áætlað að Íbúðalánasjóður muni skila jákvæðum rekstrarafgangi og ekki er lengur gert ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja sjóðnum til aukið eigið fé samkvæmt langtímaáætlunum sjóðsins. Á árinu 2015 var rekstrarkostnaður sjóðsins tæplega 1.874 milljónir króna en ný áætlun gerir ráð fyrir 1.550 milljónum í rekstrarkostnað á árinu 2017.

Sex starfsmönnum verður sagt upp í tengslum við skipulagsbreytingarnar en frekari fækkun stöðugilda verður m.a. náð fram með því að ráða ekki í stöður sem losna og með því að endurnýja ekki tímabundna samninga. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af heildareignum er nú orðinn lægstur hjá Íbúðalánasjóði af lánastofnunum hér á landi.

Hlutverk Íbúðalánasjóðs á fasteignalánamarkaði hefur breyst á síðustu árum og til merkis um það þá voru einungis 10% af nýjum húsnæðislánum sem veitt voru til heimila á árunum 2013–2015 frá sjóðnum. Hlutdeild sjóðsins er hins vegar mun hærri á landsbyggðinni og í lánum til þeirra sem fá síður fyrirgreiðslu annars staðar,“ segir m.a. í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert