Grundvallarbreyting á stjórnun löggæslu

Lögreglustjórafélagið leggst alfarið gegn breytingum á lögum sem miða að …
Lögreglustjórafélagið leggst alfarið gegn breytingum á lögum sem miða að því að færa innra eftirlit með lögreglu undir ríkislögreglustjóra. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglustjórafélag Íslands leggst alfarið gegn breytingum á lögreglulögum sem innanríkisráðuneytið hefur kynnt. Þetta kemur fram í umsögn félagsins um frumvarp ráðuneytisins, en þar er sagt að breytingar sem miði að því að leggja innra eftirlit með störfum lögreglunnar undir ríkislögreglustjóra sé ótímabært og að „um grundvallarbreytingu á stjórnun löggæslu í landinu sé að ræða.“ Segir í umsögninni að málið hafi ekki fengið neina umræðu og þá vanti allan faglegan undirbúning. RÚV sagði frá málinu fyrr í dag.

Innanríkisráðherra skipaði nefnd í janúar í fyrra til að fjalla um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Lagði nefndin mat á núverandi kerfi og lagareglur og átti að gera tillögur að breyttu verklagi og lagabreytingum. Þá var nefndinni einnig falið að gera tillögu að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi um afgreiðslu á kærum og kvörtunum vegna starfa lögreglunnar og eftir atvikum frumkvæðiseftirliti með störfum lögreglu.

Í drögum að frumvarpi til laga sem birt voru á vef innanríkisráðuneytisins í febrúar á þessu ári er hvergi minnst á að innra eftirlit verði á herðum ríkislögreglustjóra. Aftur á móti kemur fram að eftirlitið sé þríþætt í dag. „Í fyrsta lagi er um að ræða innra eftirlit lögreglunnar sjálfrar, þ.e. ríkislögreglustjóra og yfirmanna lögregluembætta, með framkvæmd lögreglustarfa, í öðru lagi meðferð kæra á hendur starfsmönnum lögreglu um refsiverða háttsemi í starfi og í þriðja lagi meðferð kvartana á hendur lögreglu vegna framkvæmdar einstakra starfa eða starfshátta lögreglu almennt,“ segir í drögunum. Þá er bent á að engin bein lagafyrirmæli séu um innra eftirlit og að slíkt sé ekki starfrækt með formlegum hætti.

Umsagnir um drögin bárust frá Lögreglustjórafélagi Íslands og embætti ríkislögreglustjóra, samkvæmt athugasemdum við lagafrumvarpið sem nú hefur verið birt á vef Alþingis. Kemur fram að Lögreglustjórafélagið lýsi yfir ánægju með efni frumvarpsins og að ríkislögreglustjóri leggi til að embættið muni starfrækja innra eftirlitið. Segir í athugasemdum frumvarpsins að tekið hafi verið mið af þessum ábendingum.

Lögreglustjórafélagið segir aftur á móti í innsendri umsögn um lagafrumvarpið sjálft að þetta atriði, þ.e. um innra eftirlit og að það yrði undir ríkislögreglustjóra, hafi ekki verið rætt og sé ótímabært. „Þessi umræða hefur ekki verið tekin og því ekki tímabært að kveða á um ný verkefni með þessu ákvæði. Ef innra eftirliti á að vera sinnt af öðrum en lögreglustjórunum sjálfum þá hlýtur embætti ríkislögreglustjóra að falla þar einnig undir. Ef setja á sérstakt innra eftirlit þá væri tilefni að kanna hvort það væri betur komið utan logreglunnar,“ segir í athugasemdum Lögreglustjórafélagsins.

Gagnrýnir félagið að í greinargerð með frumvarpinu sé talað í mjög víðri merkingu um hugtakið innra eftirlit. „Með þessu er verið að veita þessu innra eftirliti bæði mikið vægi og vald sem er algjörlega á skjön við það sem segir í byrjun greinargerðarinnar, að þessu eftirliti sé ekki ætlað að hafa áhrif á stjórnunarheimildir lögreglustjóra sem fara með stjórn lögregluliðs hver í sínu umdæmi,“ segir jafnframt í umsögn Lögreglustjórafélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert