Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst meiri

mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Kaupmáttur launa landsmanna mælist um þessar mundir hærri en nokkru sinn fyrr. Um næstkomandi helgi er ár liðið frá því að mestur hluti aðildarfélaga ASÍ undirritaði nýja kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins.

Á umliðnum tólf mánuðum, hefur launavísitalan, sem Hagstofan birtir, hækkað um 13,4%. Þrátt fyrir umsamdar launahækkanir ASÍ og SA, hækkanir annarra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á þessum tíma og endurnýjun samninga snemma á þessu ári, mælist ársverðbólgan enn aðeins 1,6% en nýjar verðbólgutölur fyrir maí eru væntanlegar næstkomandi föstudag.

Samkvæmt Hagstofunni hækkaði launavísitalan í apríl um 0,3% frá fyrri mánuði og vísitala kaupmáttar launa hækkaði um 0,1%. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala kaupmáttar launa hækkað um 11,6%.

Verðbólga undir verðbólgumarkmiðinu samfellt í tvö ár

Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ, bendir á að inni í 12 mánaða hækkun launavísitölunnar eru nú tvær kjarasamningshækkanir á almenna markaðnum, bæði samningarnir í júní 2015 og í janúar á þessu ári auk áhrifa af kjarasamningum ríkis og sveitarfélaga og annarra hópa.

„Samhliða þessum hækkunum hefur verðbólga verið lág og raunar hefur verðbólga verið undir verð- bólgumarkmiði Seðlabankans samfellt sl. tvö ár sem er lengsta tímabil frá því verðbólgumarkmið var tekið upp. Samspil þessa hefur leitt til þess að kaupmáttur launa mælist nú hærri en nokkru sinn fyrr,“ segir Henný.

Hún bendir á að í nýlegri hagspá hagdeildar ASÍ er gert ráð fyrir að verðbólga verði lítil fram eftir ári en þrýstingur til hækkunar verðlags aukist þegar líða tekur á árið og verðbólga fari vaxandi á næstu tveimur árum, og verði þá að jafnaði um 3% ár ári.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna skiptir heimilin mestu

Viðar Ingason, hagfræðingur fjármála- og rekstrarsviðs VR, hefur bent á að fyrir fjármál heimilanna segi launavísitalan ekki alla söguna og sé ekki besti mælikvarðinn á þann kaupmátt sem heimilin finna fyrir. Líta þurfi til kaupmáttar ráðstöfunartekna. Nýjar tölur um þróun ráð- stöfunartekna liggja ekki fyrir en þó ljóst sé að þær hafa aukist umtalsvert á seinustu misserum er óhætt að fullyrða að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi ekki enn náð því að vera jafnmikill og á árunum fyrir hrun.

Að sögn Viðars er sá ágalli við kaupmáttarvísitölu Hagstofunnar að hún lýsir ekki þeim kaupmætti sem heimilin finna fyrir. Kaupmáttarvísitala Hagstofunnar sýnir tímakaup dagvinnu fyrir skatt en heimilin finna mun frekar fyrir heildarlaunum þ.e. fyrir bæði dagvinnu og yfirvinnu eftir skatt. VR hefur reiknað kaupmáttarvísitölu sem sýnir þetta, þ.e. þróun kaupmáttar heildarlauna eftir skatt. Hún hefur ekki hækkað jafnmikið og launavísitala Hagstofunnar en hefur engu að síður aldrei mælst hærri en nú. Á fyrsta ársfjórð- ungi þessa árs hækkaði hún um 11,1% samanborið við sama ársfjórð- ung árið áður.

Kaupmáttarvísitölurnar ná hins vegar ekki til annarra tekna heimilanna, t.d. barna-, vaxta- og húsaleigubóta sem fjölskyldur fá, auk þess vaxtakostnaðar sem þær bera t.d. af húsnæði. „Þetta eru upplýsingar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna sýnir en það eru tölur sem eru aðeins birtar einu sinni á ári á vef Hagstofunnar,“ segir Viðar.

Að sögn hans benda upplýsingar sem tiltækar eru til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna sem heimilin finni eflaust hvað mest fyrir eigi nokkuð langt í land.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert