Losunarstaðir uppfylla ákvæði um baðstaði

Losunarstaðir skólps í Reykjavík og nágrenni uppfylla ströngustu ákvæði um baðstaði í náttúrunni og frekari hreinsun myndi ekki leiða til bætandi áhrifa á umhverfið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Í tilkynningunni segir m.a.:

„Í Evróputilskipun um skólplosun frá þéttbýli (nr. 271/1991/EBE) er geta viðtakans skilgreind út frá líkum á að losunin valdi ofgnótt næringarefna (fosfór og köfnunarefni) og uppsöfnun lífrænna efna sem leitt geti til súrefnisskorts, þ.e. viðtaki er viðkvæmur, almennur eða síður viðkvæmur. Fyrrnefndar rannsóknir sýna með óyggjandi hætti fram á að viðtaki fráveitu frá Ánanaustum og Klettagörðum flokkast síður viðkvæmur þar sem hverfandi líkur eru taldar á neikvæðum áhrifum af völdum næringarefna miðað við losunina eins og hún er í dag.

Fyrir og eftir að rekstur hreinsistöðva hófst við Ánanaust og Klettagarða hafa rannsóknir farið fram á Sundunum á mögulegum áhrifum skólplosunar. Um þessar stöðvar fer skólp frá Reykjavík, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Kópavogi og Garðabæ. Í stöðvunum fer fram grófhreinsun, sandfelling og fitufleyting. Skólpi er því næst dælt út og losað út um dreifara á stútum lagnanna nokkra km norðvestur af stöðvunum. Rúmir 3 km eru á milli losunarstaðanna.

Á síðasta ári kom út ítarleg greinargerð sem var unnin fyrir Orkuveitu Reykjavíkur (Veitur ohf.) í samræmi við gildandi starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins til að reka skólphreinsistöðvar. Í umræddri skýrslu er greint frá síðustu rannsóknarlotu á seti, kræklingi og sjó, sem byrjað var á sumarið 2008. Mat á ástandi setsins gefur til kynna hver afdrif agna úr skólpinu og líkindi þess að þær setjist niður á botn eru. Kræklingur er hentugur til að kanna upptöku aðskotaefna og örvera þar sem hann er stöðugt að sía sjóinn og til að fá vitneskju um dreifingu efna og örvera eru sjósýni greind.

Einkum er áhugaverð sú niðurstaða að losunarstaður skólps uppfyllir ströngustu ákvæði reglugerðar nr. 460/2015 um baðstaði í náttúrunni birtumestu mánuði ársins. Þegar dimma tekur er líftími þeirra örvera sem tekið er tillit til við mat á baðsvatnsgæðum lengri og myndi sjór beint fyrir ofan við útrásir ekki ná að mæta ströngustu kröfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert