Mótmæltu brottvísun hælisleitanda

Eze Okafor.
Eze Okafor.

Um 30 manns komu saman fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu í kvöld til að mótmæta brottvísun Ezes Okafors, fórnarlambs hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í Nígeríu, en til stendur að senda hann úr landi í fyrramálið.

„Það var aðallega sorg í mótmælendum. Þetta eru ofboðslega erfiðar fréttir. Eze er mjög góður vinur okkar og hann er ljúfasta sál sem maður hefur kynnst svo það er mikill samhugur í okkur,“ segir Ragnheiður Freyja Kristínardóttir, einn skipuleggjenda mótmælanna.

Flúði Boko Haram í Nígeríu

Okafor kom til Íslands frá Svíþjóð fyrir fjórum árum eftir að hann flúði hryðjuverkasamtökin Boko Haram í Nígeríu. Síðan þá hefur hann byggt upp líf sitt á Íslandi en hefur enn ekki fengið umsókn sína um stöðu flóttamanns skoðaða vegna tilvísana í Dyflinnarreglugerðina.

Hann hafði áður sótt um hæli í Svíþjóð og verður því líklega sendur aftur til Svíþjóðar þar sem yfirvöldum þar er gert að vinna úr máli hans. Fái hann synjun í Svíþjóð er hugsanlegt að hann verði sendur aftur til Nígeríu. Okafor segir að þar sé líf hans í hættu vegna Boko Haram.

10. maí sl. úrskurðaði kærunefnd útlendingamála að það samrýmdist ekki ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar að vísa Eze á brott á grundvelli hennar, til þess hafi of langur tími liðið. Eftir að Eze og vinir hans á Íslandi fylltust von um að hann fengi loks að vera á Íslandi án sífelldrar hræðslu um að hann yrði sendur brott ákvað Útlendingastofnun að virða að vettugi ákvörðun æðra stjórnvalds, kærunefndar útlendingamála. Útlendingastofnun hefur þannig ákveðið, þvert á úrskurð ærða stjórnvalds sem stofnuninni ber að fara eftir, að halda brottvísun til streitu,“ segir í tilkynningu frá No borders Iceland.

Mikil merki áfallastreitu hjá Okafor

Ragnheiður segir að mótmælendur hafi einna helst krafist þess að Eze yrði sleppt, að hann fái dvalarleyfi hið snarasta og að umsókn hans um stöðu flóttamanns verði tekin til efnislegrar skoðunar hér á landi. Á meðan mótmælin fóru fram hafi lögfræðingur Eze og fulltrúi frá No borders farið inn á lögreglustöð og fengið að hitta Eze, en verið tilkynnt að brottvísunin stæði og honum yrði vísað úr landi í fyrramálið.

„Miðað við hvernig mér líður get ég ekki ímyndað mér hvernig honum líður sitjandi þarna inni. Hann ætti að hafa fengið sálrænan stuðning fyrir löngu því maður er löngu farinn að sjá mikil merki áfallastreitu hjá honum,“ segir Ragnheiður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert