Í rakarastól í fyrsta skipti í 23 ár

Jón Halldór klippti hár Sturlu í dag, en það er …
Jón Halldór klippti hár Sturlu í dag, en það er í fyrsta skipti í 23 ár sem hann sest í rakarastól. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er sáttur og klipparinn er sáttur en svo er bara spurningin hvort þjóðin verður sátt,“ segir Sturla Jónsson forsetaframbjóðandi sem settist í rakarastól í dag í fyrsta skipti í 23 ár. Jón Halldór Guðmundsson, hárgreiðslumeistari á rakarastofunni Effect, klippti Sturlu, en hann hefur klippt Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í hátt í 30 ár. 

„Sturla hringdi í hádeginu og spurði hvort þetta væri forsetastofan, það er að segja hvort forsetinn léti klippa sig hér, og þegar svarið var já spurði hann hvort hann gæti fengið tíma í dag hjá þeim sem klippir forsetann,“ segir Jón Halldór í samtali við mbl.is, en hann varð við ósk Sturlu sem sagðist þurfa að komast í klippingu fyrir beina útsendingu í sjónvarpinu á morgun.

„Ég sagði honum að hann væri með líf mitt í höndunum á sér“

„Maður verður að líta vel út, eða að minnsta kosti halda að maður líti vel út,“ segir Sturla í samtali við mbl.is. Spurður hvort hann hafi verið með einhverjar sérstakar óskir svarar hann neitandi, en segir þó að um mikið ábyrgðarstarf hafi verið að ræða fyrir hárgreiðslumeistarann. „Ég sagði honum bara að hann væri með líf mitt í höndunum á sér,“ segir hann og hlær.

Eiginkona Sturlu hefur klippt á honum hárið síðan þau kynntust og var þetta því í fyrsta skipti í 23 ár sem hann fer á hárgreiðslustofu. „Konan mín hefur séð um þetta síðan ég kynntist henni og ég hef alla tíð verið sáttur við það sem hún hefur gert fyrir mig,“ segir hann en útskýrir að síðustu daga hafi hann fengið ábendingar úr nokkrum áttum um að hann ætti að láta fagmann um að klippa á sér hárið fyrir kosningabaráttuna. „Ég ákvað að slá til og það eru engin særindi yfir því,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert