Stemmi stigu við kampavínsklúbbum

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Það er full ástæða til að stemma stigu við starfsemi svonefndra kampavínsklúbba hér á landi. Helsta orsök mansal tengist enda vændisstarfsemi og slíkum klúbbum. Þetta sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í sérstakri umræðu um starfsemi kampavínsklúbba á Alþingi í dag.

Hann sagði að klúbbar sem þessir hefðu lengið verið þyrnir í augum sínum. Hann bað sérstaklega um umræðuna í kjölfar svars sem hann fékk frá innanríkisráðuneytinu, en þar kemur fram að 197 til­vik sem tengj­ast starf­semi ­klúbbanna hafi verið skráð í dag­bók lög­regl­unn­ar á höfuðborgarsvæðinu frá 1. janú­ar til 8. des­em­ber árið 2015 en á sama tíma­bili var 61 brot skráð í mála­skrá lög­reglu.

Þorsteinn sagði það hafa komið á óvart hversu margvísleg brot hafi verið um að ræða sem tengjast klúbbunum, svo sem er varða fíkniefnalöggjöfina, sölu vændis, líkamsárásir og fjármálabrot. Það sem einkenndi þessi brot væri að mörg þeirra væru ekki kærð.

Hann sagði í sjálfu sér ekki mjög einfalt fyrir þolendur að kæra þessi brot. Það væru margs konar þolendur í þessum málum – menn sem „detta inn á þessa staði í misjöfnu ástandi“ og er jafnvel byrlað ólyfjan og greiðslukortið þeirra misnotað.

Það skýri að hluta til þau fáu mál sem kærð eru.

Hann sagði að sönnunarbyrðin í málum sem þessum væri erfið, en engu að síður væri full ástæða til þess að stemma stigu við starfsemi þessara klúbba. 

Þá taldi Þorsteinn að þó svo að sagt væri að klúbbarekstur af þessu tagi sé óaðskiljanlegur hluti ferðamennsku teldi hann ferðamennsku sem þessa ekki okkur að skapi. Við viljum ekki fá ferðamenn hingað til lands sem sækja skemmtun af þessu tagi.

Frétt mbl.is: 197 tilvik vegna kampavínsklúbba

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert