Útilokað að bankinn hafi keypt hlut

Salan á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum 2003 er aftur komin …
Salan á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum 2003 er aftur komin í sviðsljósið. mbl.is/Jim Smart

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur útilokað að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser Pri­vat­bankiers hafi keypt hlut í Búnaðarbanka Íslands árið 2003. Hann vill að Alþingi bregðist við ábendingu umboðsmanns Alþingis og komist að því hver hafi í raun verið þátttaka bankans í kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum.

Vilhjálmur hefur lengi haft efasemdir um að aðkoma þýska bankans að kaupunum hafi verið með þeim hætti sem kynnt var þegar S-hópurinn og íslenska ríkið undirrituðu kaupsamning um kaup hópsins á 45,8% hlut ríkisins í Búnaðarbankanum í janúarmánuði árið 2003. Hann telur að blekkingum hafi verið beitt og að bankinn hafi aðeins verið leppur í viðskiptunum. Og það sem meira er, segist hann hafa ákveðnar vísbendingar um það hver hafi beitt blekkingum, en hann vill ekki láta uppskátt um það.

Eins og mbl.is greindi frá í gær hafa Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, borist nýjar upplýsingar um hvernig leiða megi í ljós hver hafi verið aðkoma þýska bankans að kaupunum margumræddu. Hann gerði grein fyrir málinu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær og sagðist þá telja eðlilegast, ef Alþingi tel­ur rétt að freista þess að fá fram og birta nýj­ar upplýsing­ar um þátt­töku bank­ans, að skipuð verði rannsóknarnefnd á vegum þingsins sem rannsaki málið. 

Sameinaðist Kaupþingi stuttu síðar

Val­gerður Sverr­is­dótt­ir, þáver­andi viðskiptaráðherra, og Geir Haar­de, þá fjár­málaráðherra, undirrituðu í janú­ar 2003 kaup­samn­ing fyr­ir hönd rík­is­ins við S-hóp­inn svo­nefnda, þ.e. Eglu, Vá­trygg­inga­fé­lag Íslands, Sam­vinnu­líf­eyr­is­sjóðinn og Eign­ar­halds­fé­lagið Sam­vinnu­trygg­ing­ar, um kaup hans á 45,8% hluta­bréfa í Búnaðarbanka Íslands. Egla var þá sagt vera hluta­fé­lag í eigu þýska bank­ans Hauck & Auf­häuser Pri­vat­bankiers KGaA, Kers og Vá­trygg­inga­fé­lags Íslands.

Búnaðarbankinn sameinaðist síðan Kaupþingi aðeins þremur mánuðum eftir að skrifað var undir kaupsamninginn. Hafa margir haft á orði, þar á meðal Vilhjálmur, að sameiningin hafi verið á teikniborðinu frá upphafi.

Um ári síðar var tilkynnt að þýski bankinn hefði selt hluta af eign sinni í Búnaðarbankanum og um sumarið 2005 var tilkynnt um að hann hefði selt það sem eftir var til Kjalars ehf., félags í eigu Ólafs Ólafssonar, stjórnarformanns Samskipa og eins af forystumönnum S-hópsins.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ekkert í ársskýrslu um hlut bankans 

Fyrir rúmlega tíu árum gaumgæfði Vilhjálmur, sem var þá aðjúnkt við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, ársreikninga þýska bankans og komst að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði ekki getað átt hlut í Eglu. Erfitt hafi verið að afla upplýsinga frá þýska bankanum um aðkomu hans að viðskiptunum og raunar hafi viðskiptanna ekki einu sinnið verið getið í ársreikningum fyrir árin 2003 og 2004. Bankinn hafi gefið upp eignarhluta í fjármálafyrirtækjum en stærðin verið slík að eignarhlutur í Búnaðarbankanum rúmaðist ekki innan þeirrar stærðar sem upp var gefin. 

Þá hafi reikningar bankans heldur ekki sýnt þann mikla gengishagnað sem átti að verða vegna eignarhlutans.

„Öll hegðun bankans var á þessum tíma með þeim hætti að hann hafði engan áhuga á þessu máli,“ segir Vilhjálmur í samtali við mbl.is. Hann bendir meðal annars á að fulltrúinn sem bankinn tilnefndi til setu í bankaráði Búnaðarbankans hafi ekki spurt neinna spurninga um rekstur bankans, ekki beðið um neinar skýrslur og ekki í raun haft neinn áhuga á rekstri bankans. Einnig hafði starfsfólk þýska bankans í útibúi hans í Lúxemborg ekki haft neinn áhuga á samskiptum við Búnaðarbankann, sem var þá jafnframt með útibú í Lúxemborg. 

„Þegar fulltrúi Búnaðarbankans fór í heimsókn til þessa nýja samstarfsaðila í Lúxemborg var honum nánast hent út. Þeir sögðust ekkert kannast við þetta. Það var nú hinn sterki samstarfsaðili,“ segir Vilhjálmur.

Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, hafa borist nýjar upplýsingar um aðkomu …
Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, hafa borist nýjar upplýsingar um aðkomu þýska bankans. Hann vill að málið verði rannsakað, ef vilji þingsins stendur til þess. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þátttöku erlends banka fagnað

Þegar kaupsamningurinn vegna sölunnar var undirritaður í janúar 2003 kom fram að þýski bankinn hefði eignast 16,3% hlut í Búnaðarbankanum í gegnum hlut sinn í Eglu, sem var stærst þeirra félaga sem stóð að S-hópnum. Í fréttatilkynningu frá kaupendum var því fagnað að traustur erlendur banki tæki þátt í að fjárfesta í íslenskri fjármálastofnun og að tengslin myndu nýtast í markaðssókn erlendis.

Þýski bankinn var hins vegar aldrei nefndur til sögunnar sem fjárfestir með S-hópnum.

Þegar ríkið skrifaði undir samkomulag um viðræður við S-hópinn var ekki vitað hver erlendi fjárfestirinn var. Aðeins var talað um að ein eða fleiri erlendar fjármálastofnanir væru í hópnum. Á þeim tíma átti S-hópurinn í viðræðum við virtan franskan banka, Société Genérale.

Tók hópurinn fram í fréttatilkynningu að erlendi fjárfestirinn vildi ekki koma fram undir nafni fyrr en búið væri að undirrita kaupsamninginn.

Það kom því mörgum á óvart þegar tilkynnt var um að lítill þýskur einkabanki væri erlendi fjárfestirinn. Nafn hans hafði aldrei verið nefnt áður og höfðu raunar margir aldrei heyrt á hann minnst. Þá þótti lýsing breska bankans HSBC, sem var fenginn til þess að skera úr um áreiðanleika erlenda fjárfestisins, ekki eiga við um þýska bankann. HSBC stimplaði fjárfestinn sem góðan og talaði í því sambandi um stóran alþjóðlegan fjárfestingarbanka, án þess að gefa upp nafn hans.

Lýsing HSBC átti betur við um Société Genérale, sem var einn stærsti banki Evrópu á þessum tíma.

Vert er þó að taka fram að S-hópurinn hefur ávallt neitað því að hafa gefið upp annað nafn en nafn þýska bankans, Hauck & Aufhäuser.

45,8% hlutur ríkisins í Búnaðarbanka Íslands var seldur í janúar …
45,8% hlutur ríkisins í Búnaðarbanka Íslands var seldur í janúar 2003. Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, þá viðskiptaráðherra, Ólafur Ólafsson, formælandi S-hópsins, og Peter Gatti, framkvæmdastjóri þýska bankans Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA. (Blaðamannafundur um kaup á Búnaðarbankanum í aðalbankanum) mbl.is/Árni Sæberg

Tveir hópar höfðu barist um kaupin á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, annars vegar S-hópurinn og hins vegar fjárfestingafélagið Kaldbakur, sem var meðal annars í eigu útgerðarfélagsins Samherja og Kaupfélags Eyfirðinga.

Það kann að hafa haft þýðingu, þegar S-hópurinn varð fyrir valinu, að erlendur banki hafi verið í slagtogi með hópnum. Það hefur í það minnsta styrkt stöðu hópsins, enda hafði ríkið kallað eftir því að sterk erlend fjármálastofnun kæmi að kaupunum.

Hástemmd fréttatilkynning

Vilhjálmur bendir á að í hástemmdri fréttatilkynningu frá kaupendunum 16. janúar 2003, þegar kaupsamningurinn var undirritaður, hafi beinlínis komið fram að þýski bankinn væri traustur banki og að með eignarhaldi sínu sköpuðust tengsl sem íslensk fyrirtæki gætu notfært sér til að styrkja starfsemi sína og sókn á erlendum mörkuðum. Bankinn væri enn fremur með starfsemi í Sviss og Lúxemborg.

Í ársskýrslum bankans komi hins vegar fram að bankinn hafði engan vaxtamun í rekstri sínum í Sviss, en fáeinar milljónir evra í Lúxemborg. Eignirnar væru heldur ekki miklar á þessum stöðum. Með því að þegja um þetta í fréttatilkynningunni hafi mátt ætla að bankinn væri mjög merkilegur, enda þótt enginn hafi nokkru sinni heyrt hans getið.

Búnaðarbankinn sameinaðist Kaupþingi aðeins fáeinum mánuðum eftir að S-hópurinn hafði …
Búnaðarbankinn sameinaðist Kaupþingi aðeins fáeinum mánuðum eftir að S-hópurinn hafði keypt hlut ríkisins í bankanum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hið sanna komi fram

Vilhjálmur gagnrýnir einnig Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið sem hann segir að hafi ekki haft áhuga á að skoða málið á sínum tíma. Lítill vilji hafi verið til þess að fá hið sanna fram í málinu. Rannsóknarnefnd Alþingis, sem rannsakaði orsakir og aðdraganda falls bankanna 2008, hafi fjallað um málið en ekki komist lengra – raunar ekki haft næg gögn undir höndum. Vinnunni sé í raun ólokið. „Það er margt í rannsóknarskýrslunni sem er þess eðlis að einhvers staðar kemst maður ekki lengra. En þetta er atriði sem þarf að klára.“

Nú hafi umboðsmaður Alþingis upplýsingar undir höndum sem varpað geta ljósi á aðkomu bankans. Það sé mjög mikilvægt að málinu verði fylgt eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert