Ánægður með að sýna í Hörpu

Helgi Tómasson á blaðamannafundinum í Hörpu í dag.
Helgi Tómasson á blaðamannafundinum í Hörpu í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Helgi Tómasson, listrænn stjórnandi San Francisco-ballettsins, segist vera afskaplega ánægður með að sýna í fallegu húsi eins og tónlistarhúsið Harpa sé. Það sé ekki aðeins gott tónlistarhús heldur afbragðshús til að sýna dansleiki. Þetta sagði hann á blaðamannafundi sem haldinn var í Hörpu í dag, þar sem hann svaraði spurningum ásamt nokkrum af helstu dönsurum flokksins.

Dagana 28.–31. maí sýnir San Francisco-ballettinn í fyrsta skipti á sviði Eldborgar í Hörpu við lifandi undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sýningin verður mun umfangsmeiri en fyrri sýningar flokksins hér á landi. Helgi hefur lýst því svo að nú gefist Íslendingum kostur á að sjá það besta sem ballettinn hefur upp á að bjóða. Sýningarnar verði sambærilegar þeim sem settar eru upp í San Francisco.

Þegar einn af dönsurunum hans, Frances Chung, var spurð af blaðamanni Morgunblaðsins hvort það væri ekki hræðilegt að vinna með svona ástríðufullum manni eins og Helga Tómassyni sagði hún þvert á móti að það væri yndislegt. Hún hefði ekki vitað neitt um Ísland nema það að Helgi Tómasson og Björk Guðmundsdóttir væru frá þessu skrýtna landi. Henni fyndist það forréttindi að þekkja Helga og vinna með honum og það væru líka forréttindi að vera hérlendis og fá að kynnast landi og þjóð.

Þá heldur forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, móttöku á Bessastöðum í dag til heiðurs Helga Tómassyni og San Francisco-ballettinum. Móttakan hefst kl. 18:30.

Koma San Francisco-ballettsins hingað til lands er samstarfsverkefni Hörpu, Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Á blaðamannafundinum voru nokkrir helstu dansarar San Francisco-ballettsins ásamt Helga.
Á blaðamannafundinum voru nokkrir helstu dansarar San Francisco-ballettsins ásamt Helga. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert