Bilunin í farþegaþotunni minni háttar

.
. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bilun, sem kom upp í farþegaþotu Icelandair á leið til Gautaborgar í Svíþjóð skömmu eftir miðnætti síðastliðna nótt, var minni háttar að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa félagsins. Segir hann að ef ekki hefði verið fyrir yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefði flugvélin þess vegna getað haldið áfram að viðgerð lokinni. Þess í stað var farþegum komið í aðrar flugvélar. Þar á meðal til Stokkhólms og þaðan áfram til Gautaborgar.

Frétt mbl.is: Snúið við skömmu eftir flugtak

Farþegaþotan lagði af stað frá Keflavík skömmu eftir miðnætti eins og áður segir en var snúið við eftir að mælar sýndu að vinstri vængur þotunnar væri að missa olíu. Lent var aftur í Keflavík um klukkan eitt og litu flugvirkjar á vélina. Vegna yfirvinnubannsins var hins vegar flug um flugvöllinn takmarkað við sjúkra- og neyðarflug á milli klukkan tvö og sjö í morgun. Flugumferðarstjórar sem vera áttu á vakt voru veikir og aðrir fengust ekki í stað þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert