Borgin fjármagni þróun hraðlestar

Um er að ræða þróun og byggingu mögulegrar hraðlestar milli …
Um er að ræða þróun og byggingu mögulegrar hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að borgin verði stofnaðili og hlutafjáreigandi í hlutafélagi um þróun og byggingu mögulegrar hraðlestar milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.

Meirihluti borgarráðs samþykkti þetta á fundi borgarráðs í dag.

Borgarstjóri lagði til, að Reykjavíkurborg myndi eignast 3% hlut í félaginu með því að leggja inn sem stofnfé þegar framlagðan kostnað við frumskoðun verkefnisins.

„Borgarráð hafði áður samþykkt að leggja fram fé til frumskoðunar. Jafnframt samþykkti borgarráð að eftir stofnfund verði breyting á hlutafjáreign Reykjavíkurborgar vegna innkomu aukins hlutafjár í verkefnið sem geri það að verkum að eign Reykjavíkurborgar verði þá 2%,“ segir í tillögunni sem borgarráð samþykkti.

Hugmyndir um hraðlest verði knúnar áfram af einkaaðilum

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins og lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að hugmyndir um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur eigi að vera knúnar áfram af einkaaðilum sem hafi af því hagsmuni að reka slíka lest. Fjármagn til uppbyggingar og rekstrar, verði af verkefninu, eigi að öllu leyti að vera fjármagn einkaaðila sem eru tilbúnir að taka áhættu með sitt fjármagn varðandi uppbyggingu og rekstur. Ekki kemur til greina að mati borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að leggja fjármagn skattborgara í slíkt áhættuverkefni.“

Engin viðurkenning eða samþykkt á verkefninu

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun:  

„Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina, Vinstri grænna og Pírata samþykkja að þessum fjármunum sem þegar hefur verið varið til verkefnisins sé breytt í hlutafé í væntanlegu félagi. Í því felst þó engin viðurkenning eða samþykkt á verkefninu eða samþykki fyrir frekari skuldbindingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert