Fangar svara Helga Gunnlaugs

Fangelsið Litla-Hrauni.
Fangelsið Litla-Hrauni. mbl.is/Árni Sæberg

Afstaða, félag fanga á Íslandi, andmælir fullyrðingum Helga Gunnlaugssonar afbrotafræðings í fréttum Ríkissjónvarpsins um að „breytingar á lögum um fullnustu refsinga hafi verið sérhannaðar að hvítflibbaglæpamönnum”.

Frétt RÚV: Kemur „mjög á óvart“ að sjá fanga í þyrlu

Frétt mbl.is: Bretar glottu spurðir um þyrluflug

Í yfirlýsingu sem formaður félagsins, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sendi út í kvöld segir félagið að breytingin hafi verið almenn og gagnrýnir að Helgi haldi öðru fram, hafandi verið skipaður í nefnd fyrir sex árum sem hafði það að markmiði að endurskoða ákvæði laga um fullnustu refsinga í heild sinni.

„Það var samdóma álit þáverandi nefndarmanna, þar á meðal Helga, að rétt væri að gera strax breytingar á lögum um fullnustu refsinga með það að markmiði að fjölga úrræðum og rýmka fullnustu utan fangelsa. Nefndin skilaði frumvarpi þess efnis til ráðuneytisins í lok árs 2010 og gerði frumvarpið ráð fyrir upptöku rafræns eftirlits sem fullnustuúrræðis í lok afplánunar og rýmkun á samfélagsþjónustu. Frumvarpið var síðar samþykkt á Alþingi,“ segir í yfirlýsingunni.

Segir félagið að í ljósi þess hve vel hafi tekist til við afplánun með rafrænu eftirliti hafi verið ákveðið að ganga enn lengra við endurskoðun laga um fullnustu refsinga sem tók gildi í mars á þessu ári. Vísar félagið í athugasemdir frumvarpsins og umsögn Fangelsismálastofnunar máli sínu til stuðnings.

Þekkti vel til innihaldsins

„Helgi segir í sama viðtali á RÚV að þessum reglum hafi verið breytt á síðustu metrunum í mars á þessu ári þannig að þær hafi passað mjög vel fyrir tiltekinn brotahóp sem hafi verið dæmdur fyrir efnahagsbrot.  Er það helst að skilja að hann vilji opinbera rannsókn á því sem gerði það að verkum að þessi tiltekna breyting var gerð.  Það er að segja hverjir komu þar að máli.“

Félagið bendir á að Helgi hafi verið einn þeirra sem leitað var til við gerð frumvarpsins og að hann hafi skilað inn umsögn til Alþingis  þar sem hann skrifar að hann hafi tekið þátt í undirbúningi frumvarpsins á byrjunarstigi og þekki því vel til innihaldsins. Þar segir hann ýmis jákvæð nýmæli í lögunum sem ætlað sé að auðvelda föngum og dómþolum að aðlagast samfélaginu á farsælan hátt eftir afplánun. Nefnir hann þar sérstaklega aukna möguleika á samfélagsþjónustu eftir 12 mánaða óskilorðsbundinn dóm, tilkomu fjölskylduleyfa í tvo sólarhringa, rýmkað rafrænt eftirlit og möguleika á lausn eftir þriðjung refsitímans fyrir brotamenn yngri en 21 árs.

„Í þessu sambandi ber að hafa í huga að enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn lögunum. Eina breytingin sem Alþingi gerði á frumvarpinu í mars var að samræma rýmkað rafrænt eftirlit fyrir fyrstu 12 mánuði refsingar til samræmis við lengri dóma. Allir þingmenn voru sammála þeirri breytingu, jafnt þingmenn meirihlutans sem og þingmenn minnihlutans,“ skrifar Guðmundur í yfirlýsingunni.

„Ég tók virkan þátt í þessari vinnu sem formaður Afstöðu og átti nokkur samskipti við Helga og vildi hann gjarnan ganga lengra í hinum ýmsu atriðum er varðar betrun í stað refsingar. Það er því svolítið skrítið að prófessorinn, sem var í nefndinni sem skipuð var árið 2010 og kom á rafrænu eftirliti og hafði aðkomu að samningu frumvarpsins nú, þar sem rafræna eftirlitið var rýmkað, skuli nú gerast sérstakur sérfræðingur í sínum eigin verkum og kalla eftir rannsókn í stað þess að skoða sína eigin umsögn. Ég held að allir sem þekkja til þessa málaflokks geti verið sammála um að nýju lögin eru meingölluð en eitt af því fáa sem er gott og jákvætt í lögunum er einmitt rýmkað rafrænt eftirlit sem er þáttur sem ber að fanga, eins og Helgi sjálfur orðaði það.“

Guðmundur kveðst sjálfur hafa gagnrýnt nýju lögin harðlega en að hann geti þó ekki gert annað en fordæmt þá sem „koma með aðdróttanir um að Alþingi hafi samið lög fyrir fámennan hóp á meðan þessi lög eru almenn og allir fangar njóta góðs af þeim og þar á meðal ég.“                                                            

„Við eigum Evrópumet í endurkomum í fangelsin og erum svo langt á eftir öðrum löndum í betrun en við skulum ekki eyðileggja þó það jákvæða sem hefur verið gert. Það á ekki að og má ekki fara í manngreiningarálit þegar kemur að lögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert