Fjögur í kappræðum 365

Frá kappræðunum á Stöð 2 í kvöld.
Frá kappræðunum á Stöð 2 í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir frambjóðendur mældust með 2,5 prósenta fylgi eða meira í könnun fréttastofu 365; þau Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir.

Frá þessu greinir Vísir en 2,5 prósent urðu viðmiðunarfylgi fréttastofunnar fyrir þá frambjóðendur sem boðið væri að taka þátt í kappræðum sem nú standa yfir á Stöð 2.

Rúmlega 65 prósent þeirra sem tóku afstöðu sögðust ætla að kjósa Guðna. Davíð mældist með tæplega 20 prósenta fylgi, Andri með tæplega 8 prósent og Halla með 2,5 prósent.

Sturla Jónsson mælist með 1,7 prósent en aðrir með minna, alls 2,7 prósent.

„Hringt var í 1.080 manns þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 23. og 24. maí. Svarhlutfallið var 74,1% prósent. Spurt var: Ef forsetakosningar færu fram á morgun, hvern myndir þú kjósa? Alls tóku 67 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar,“ segir í frétt Vísis.

Aðrir frambjóðendur eru Elísabet Jökulsdóttir, Hildur Þórðardóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir og Ástþór Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert