Grafalvarleg staða framhaldsskólanna

mbl.is/Eyþór Árnason

Kennarafélag Verkmenntaskóla Austurlands lýsir yfir þungum áhyggjum yfir þröngri fjárhagsstöðu íslenskra framhaldsskóla. Þetta kemur fram í ályktun um fjárhagsstöðu framhaldsskólanna sem samþykkt var á fundi félagsins í morgun.

„Menntun er undirstaða velferðar í nútímasamfélagi, því er það verulegt áhyggjuefni hvernig búið er að framhaldsskólum landsins. Brýnt er að grípa til aðgerða og leiðrétta stöðuna nú þegar enda sé í óefni komið. Staðan er í raun grafalvarleg og teljum við nauðsynlegt að grípa í taumana,“ segir í ályktuninni.

Þar kemur fram að formaður Skólameistarafélags Íslands hafi sagt það nánast vonlaust að reka framhaldsskóla á Íslandi við núverandi aðstæður. Þeir skólar sem hafi haft í einhverja sjóði að sækja séu að tæma þá og nú fyrir stuttu hafi skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri sagt skólann í raun gjaldþrota.

„Í kjarasamningum vorið 2014 skrifuðu ráðherrar mennta- og fjármála undir yfirlýsingu um að styrkja fjárhagsgrunn framhaldsskólana og auka samræmi milli fjárveitinga og þeirrar þjónustu sem skólarnir eiga að veita. Endurskoða átti reiknilíkan með áherslu á að grunnbreytur endurspegli launakostnað sem réttast á hverjum tíma, þeirri endurskoðun átti að vera lokið fyrir ári síðan. Samt sem áður er það þannig að launastika reiknilíkansins sem skammtar skólunum fjármagn sem þeim ber til þess að greiða kennurum laun endurspeglar á engan hátt launakostnað. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að fjármálayfirvöld standi við gerða samninga.“

Frétt mbl.is: Framlögin dugi ekki til

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert