Hafa áhyggjur af sjúkratryggingafrumvarpinu

Læknafélag Reykjavíkur telur að vanda þurfi til breytinga á heilbrigðiskerfinu.
Læknafélag Reykjavíkur telur að vanda þurfi til breytinga á heilbrigðiskerfinu. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Læknafélag Reykjavíkur hefur miklar áhyggjur af frumvarpi um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Telur félagið mikilvægt að vanda til allra breytinga á heilbrigðiskerfinu og þá megi kostnaður sjúklinga ekki verða svo hár að þeir leiti ekki þeirrar þjónustu sem þörf er á.

Ályktunin var samþykkt á aðalfundi Læknafélags Reykjavíkur sem haldinn var sl. þriðjudag. Þar lýsti félagið yfir miklum áhyggjum vegna frumvarps um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, sem nú er til meðferðar hjá Alþingi.

Telur félagið mikilvægt að vanda allar breytingar sem gerðar eru á heilbrigðiskerfinu. „Tryggja ber áframhaldandi aðgengi viðkvæmra hópa, svo sem barna, eldri borgara og þeirra sem kljást við langvarandi veikindi af ýmsum toga, að  þeirri heilbrigðisþjónustu sem í boði er,“ segir í ályktuninni. Þá sé líka mikilvægt að kostnaðarhlutdeild sjúklinga verði ekki svo há að hún hamli því að þessir hópar sæki sér þjónustu þegar þörf er á henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert