Mikilvægt að meta hvert mál

Guðni og Andri Snær bera saman bækur sínar.
Guðni og Andri Snær bera saman bækur sínar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt er að forsetinn hverju sinni stilli sjálfum sér ekki upp við vegg þegar kemur að ákvörðun um það hvort vísa eigi máli í þjóðaratkvæði eða ekki. Þetta voru Davíð Oddsson og Guðni Th. Jóhannesson sammála um í þætti Stöðvar 2 um forsetakosningarnar sem sýndur var í kvöld en þar komu fram þeir fjórir frambjóðendur sem mældust með mest fylgi í nýlegri skoðanakönnun sjónvarpsstöðvarinnar og Fréttablaðsins. Auk Guðna og Davíðs sátu fyrir svörum þau Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir.

Frambjóðendurnir voru spurðir að því hversu margar undirskriftir þyrftu að safnast til þess að þeir myndu vísa máli í þjóðaratkvæði. Davíð var spurður fyrst og sagði hann enga slíka reglu vera til staðar. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði fundið hana upp en þó ekki alltaf farið eftir henni. Ekki væri hægt að hafa slíka reglu nema alltaf væri farið eftir henni. Mikilvægt væri að horfa til fleiri þátta eins og til að mynda aðdraganda málsins. Þá skipti einnig máli hversu mikla þýðingu málið hefði fyrir þjóðina og hvort það væri afturkræft.

Halla sagði að hún myndi miða við 15% atkvæðabærra manna eins og miðað væri við í drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Guðni tók undir með Davíð. Forsetinn mætti ekki stilla sér upp við vegg í þessum efnum og setja sér ófrávíkjanlega reglu um fjölda undirskrifta. Hvert mál væri einstakt og meta þyrfti hvert mál á sjálfstæðum forsendum í stað þess að segja fyrirfram hvernig tekið yrði á því. Þess utan lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fá ákvæði í stjórnarskrána um að almenningur gæti sjálfur kallað eftir þjóðaratkvæði um mál. 

Davíð og Halla ræða málin.
Davíð og Halla ræða málin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andri lagði líkt og Guðni áherslu á mikilvægi þess að almenningur kæmi beint að ákvörðunum. Það væri krafan í samfélaginu og ástæða þess að fólk hafi ítrekað farið á Austurvöll til þess að mótmæla. Hvað synjunarvald forsetans varðar sagði Andri að um þyrfti að vera að ræða mál sem væri það stórt að það kallaði á mikil viðbrögð í samfélaginu.

Frambjóðendurnir voru ennfremur spurðir að því hvernig þeir sæu fyrir sér Ísland eftir fjögur ár ef þeir næðu kjöri sem forsetar. Bæði Andri og Halla lögðu áherslu á mikilvægi þess að meiri árangur hefði náðst í jafnréttismálum. Nefndi Andri meðal annars kynbundinn launamun og læsi drengja fyrir utan nýja stjórnarskrá. Davíð sagði það ekki vera eingöngu á valdi forsetans að ákveða það hvernig staðan yrði þá heldur fyrst og fremst þjóðarinnar. Guðni tók undir með Davíð að forsetinn réði því ekki einn. Forsetinn gæti þó lagt sitt lóð á vogaskálarnar. Hvað sig varðar vonaði hann að fólk gæti sagt: „Já, þarna er forsetinn minn.“

Einnig voru frambjóðendurnir spurðir að því hvernig aðkoma þeirra að stjórnarmyndunum yrði. Andri sagðist telja vald forsetans í þeim efnum ofmetið. Það væri fyrst og fremst verkefni Alþingis að mynda stjórnir og þingið hefði alltaf gert það. Spurður hverjum hann myndi veita stjórnarmyndunarumboð ef tveir flokkar væru jafnstórir sagði hann að líklega myndi hann bara kasta krónu upp á það. Halla lagði hins vegar áherslu á að mikilvægast væri að mynda starfhæfa stjórn. 

Andri tilbúinn í slaginn.
Andri tilbúinn í slaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Davíð sagði að forsetinn ætti fyrst og fremst að horfa til þess hvaða leið væri best til þess að mynda stjórn sem héldi og leiða þannig saman þá sem gætu unnið saman með farsælum hætti. Hann ætti ekki að horfa til þess hvaða pólitík hann vildi sjálfur sjá í landinu. Guðni sagði að horfa þyrfti til þes hver væri líklegastur til þess að geta myndað meirihlutastjórn. Það væru ekki endilega þeir sem væru stærstir. Meta þyrfti það hverju sinni. Mikilvægt væri að forsetinn gætti hlutlægni í þeim efnum.

Síðast voru frambjóðendurnir spurðir um afstöðu þeirra til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið en spurning þess efnis var send inn af áhorfanda. Halla reið á vaðið. Málið væri stórt og að hún teldi að kjósa ætti um framhald þess. Hún teldi að þjóðin myndi hafna því og sjálf myndi hún greiða atkvæði gegn því. Davíð sagðist hafa talið sig vera eina andstæðing Evrópusambandsaðilar á meðal frambjóðenda og fagnaði því að þeir væru fleiri. Hann sagðist sammála Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra, um að ekki væri ráðlegt að fara inn í brennandi hús.

Guðni sagðist styðja þjóðaratkvæði um framhald málsins. Hann myndi sjálfur vilja sjá niðurstöður mögulegs samnings við Evrópusambandið. Spurður beint hvort hann styddi inngöngu í sambandið sagði hann að eins og sakir stæðu væri hann sammála Davíð og Jóni Baldvini og myndi segja nei. Ef hreyfa ætti við málinu þyrfti að vera ríkisstjórn í landinu sem styddi málið heilshugar og hefði umboð frá þjóðinni til þess að fara áfram með það. Andri sagðist vilja að þjóðin kysi um málið en sagðist ekki hafa tekið afstöðu til þess sjálfur.

Beðið eftir því að þátturinn hefjist.
Beðið eftir því að þátturinn hefjist. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert