Rannsaka mansalsmál tengt Félagi heyrnarlausra

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mansalsmál.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mansalsmál. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar vinnumansalsmál sem tengist Félagi heyrnarlausra að því er greint var frá í Fréttablaðinu í morgun.

Snorri Birgisson, yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um tengsl við einstök félög eða atvinnurekendur. „Það er einn einstaklingur í úrræði hjá okkur sem við erum búin að skilgreina sem þolanda mansals,“ segir Snorri og kveður viðkomandi nú dvelja í Kvennaathvarfinu. 

Konan sem málið snýst um er rússnesk að sögn blaðsins, sem kveður hana hafa þurft að borga 1.000 dollara við komuna til landsins án þess að hafa hér atvinnuleyfi. Hún hafi síðan fengið um 20 þúsund krónur í laun á síðustu tveimur mánuðum en hún hafi fengið 15% af söluandvirði happdrættismiðanna, í stað 25% líkt og samkomulag við sölufólk happdrættismiða Félags heyrnarlausra segi til um.

Daði Hreinsson, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, vildi ekki tjá sig við mbl.is, en sagði yfirlýsingar að vænta frá lögmanni félagsins. Að sögn Fréttablaðsins vísar hann hins vegar ásökununum á bug og segir að starfsmaður félagsins, sem sjái um fjáröflun þess, hafi verið sendur í launalaust leyfi eftir að málið kom upp á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert