Staðfesti dóm vegna kynferðisbrots

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot gegn ungri konu. Maðurinn bauð konunni far í miðbæ Reykjavíkur í október 2013 og ók síðan með hana á afvikinn stað þar sem hann áreitti hana kynferðislega og reyndi að fá hana til þess að veita sér munnmök.

Konan lýsti því þannig fyrir lögreglu að hún hefði orðið viðskila við vinkonur sínar í miðbænum og maðurinn boðist til að skutla henni heim. Hann hafi sagst vera leigubílstjóri. Maðurinn hefði spurt á leiðinni hver væri uppáhaldsmaturinn hennar og hún svarað að það væri slátur. Hann hefði þá lagt bifreiðinni og sagt við hana: „Þú getur borðað mitt slátur“. Hún hafi skilið það þannig að maðurinn vildi að hún veitti honum munnmök. Hann hafi síðan ýtt höfði hennar að getnaðarlim hans og sett hönd hennar á hann beran eftir að hafa losað um buxur sínar.

„Þá hefði hann og snert á henni lærin innanverð og brjóstin innanklæða. Loks hefði hann farið tvisvar inn á hana og snert á henni kynfærin. Brotaþoli kvaðst ítrekað hafa sagt honum að hún vildi þetta ekki og að hún vildi fara heim. Þá sagði brotaþoli að ákærði hefði talað við hana eins og hún væri unnusta hans og kallað hana elskuna sína og ástina sína,“ eins og segir í dómi héraðsdóms. Bifreið mannsins var skömmu síðar stöðvuð af lögreglu í miðbæ Reykjavíkur. Steig hann út úr henni með óhnepptar buxur en konan var grátandi inni í bifreiðinni. Í kjölfarið greindi hún frá málavöxtum.

Maðurinn vildi fyrst meina að konan væri frænka hans en síðan vinkona og loks unnusta. Hann þvertók fyrir það að hafa ætlað að brjóta gegn konunni og sagðist hafa talið að samskiptin hefðu átt sér stað með samþykki hennar. Hann hafi meðal annars skilið svar hennar um uppáhaldsmatinn sem svo að hún vildi veita honum munnmök. Þá hafi hún ekki tekið illa í það þegar hann hafi snert hana. Framburður konunnar var hins vegar metinn trúverðugur og auk þess studdur af lögreglumönnunum og mati sálfræðings.

Fyrir utan skilorðsbundið fangelsi var maðurinn dæmdur í Hæstarétti til þess að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 773.506 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns upp á 434.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola upp á 186.000 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert