„Tökum þessu alvarlega“

„Við bíðum bara eftir að fá skýrslur um atvikið. En við tökum þessu alvarlega eins og vera ber. Svona atvik vekja auðvitað ótta hjá fólki og þarf ekki flughrædda til.“

Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is en eins og fréttavefurinn greindi frá í morgun voru tvær konur handteknar í farþegaþotu félagsins á leið til Stokkhólms þar sem þær reyndu að stöðva brottvísun hælisleitanda sem var um borð. Hælisleitandinn sjálfur tók hins vegar engan þátt í aðgerðum kvennanna.

Frétt mbl.is: Handteknar í Icelandair-vél

Blaðamaður mbl.is var um borð og sagði að konurnar hefðu öskrað yfir farþegarýmið og krafist þess að aðrir farþegar tækju þátt í að stöðva för vélarinnar. Lögreglan kom síðan um borð í farþegaþotuna og handtók konurnar. Þá var farið yfir farþegalistann vegna gruns um að fleiri mótmælendur væru um borð sem gætu haft sig í frammi þegar vélin væri komin í loftið.

„Við náttúrulega bara fylgjum þessu eftir eins og vera ber með lögformlegum hætti,“ segir Guðjón spurður um framhald málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert