Áfram seinkanir í Keflavík

Áætlanir flugfélaganna raskast áfram vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra.
Áætlanir flugfélaganna raskast áfram vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Fyrstu vélar byrja að lenda á Keflavíkurflugvelli nú klukkan sjö en þjónusta á vellinum hefur verið takmörkuð í nótt vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Sextán vélar frá Bandaríkjunum og átta á leið til Evrópu voru áætlaðar meðan á takmörkuninni stóð.

Annan daginn í röð var þjónusta á flugvellinum takmörkuð við neyðar- og sjúkraflug á milli kl. 2 í nótt og 7 í morgun. Tveir flugumferðarstjórar sem áttu að vera á vakt í nótt tilkynntu sig veika og vegna yfirvinnubannsins var ekki hægt að fylla skarð þeirra.

Samkvæmt vefsíðu Icelandair eiga tólf vélar félagsins sem koma frá Bandaríkjunum að lenda kl. 7 eftir að brottfarartíma þeirra var seinkað vegna aðgerða flugumferðarstjóra. Fimmtán Evrópuflugferðir félagsins fara í loftið klukkan 8 og 8:30.

Wow Air hefur einnig seinkað sínum ferðum vegna ástandsins á Keflavíkurflugvelli. Vélar félagsins til sjö áfangastaða fara sömuleiðis í loftið kl. 8.

Upplýsingar um breytta áætlun Wow Air

Upplýsingar um breytta áætlun Icelandair

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert