Andlát: Ragna Bergmann

Ragna Bergmann.
Ragna Bergmann.

Ragna Guðmundsdóttir Bergmann, fyrrverandi formaður Verkakvennafélagsins Framsóknar, lést síðastliðinn miðvikudag, 82 ára að aldri. Eiginmaður hennar var Jóhann Ingvarsson bifreiðastjóri, en hann lést árið 2006.

Ragna var fædd og uppalin í Reykjavík og hófu þau Jóhann búskap sinn í Skerjafirði en bjuggu síðan í Bústaðahverfi og á Háaleitisbraut. Síðustu æviárin dvaldi Ragna á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.

Ragna starfað sem verslunarmaður hjá KRON í Skerjafirði 1948-1952 og við ræstingar hjá Shell og Reykjavíkurborg 1953-1976. Meðal annars starfaði hún í Vogaskóla, þar sem afskipti hennar af verkalýðsmálum hófust.

Ragna var formaður Framsóknar 1982 til 1998, er Dagsbrún og Framsókn sameinuðust í Eflingu – stéttarfélagi. Ragna gegndi margvíslegum öðrum störfum fyrir verkalýðshreyfinguna; sat í stjórn fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, í stjórn Verkamannasambands Íslands, í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og stjórn framkvæmdanefndar um launamál kvenna og var um skeið fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands. Hún átti sæti í stjórn Eignarhaldsfélags Alþýðubankans, í stjórn lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar og sat í flokksstjórn Alþýðuflokksins. Ragna hlaut árið 1998 riddarakross fyrir störf sín að verkalýðsmálum.

Ragna sat í stjórn Kvenfélags Bústaðasóknar 1969-1976 og var í sóknarnefnd 1982-86. Þá sat hún um tíma í jafnréttisráði.

Ragna Bergmann og Jóhann áttu sex börn saman en einnig átti Ragna einn son fyrir hjónaband og Jóhann tvo syni. Afkomendur þeirra eru orðnir 69.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert