Björguðu barnaheimili úr sárri fátækt

Frá Bisket-Jatra-hátíðinni í Katmandú sem er nýársfögnuður Nepala.
Frá Bisket-Jatra-hátíðinni í Katmandú sem er nýársfögnuður Nepala. AFP

Það blasti ekki fögur sjón við Íslendingunum sem heimsóttu barnaheimili í Katmandú, höfuðborg Nepal, árið 2012.  Þar var ekki rennandi vatn, sum barnanna sváfu á gólfinu, salernið ósmekklegt, börnin í gömlum skóm, gengu ekki öll í skóla og hrísgrjón meira og minna eini maturinn á borðum.

Í dag, fjórum árum síðar, hefur staðan gjörbreyst. Öll 15 börnin á heimilinu eru komin í skóla, þeim hefur verið tryggð læknisþjónusta og fæðan er fjölbreyttari. Hópur Íslendinga tók yfir rekstur heimilisins árið 2014 og segir Einar Guðmundsson, sem fer fyrir hópnum Iceland-Nepal, að líf barnanna hafi tekið stakkaskiptum eftir að íslenski hópurinn tók reksturinn yfir. Nepölsk hjón sem ráku barnaheimilið árið 2012 starfa enn á barnaheimilnu ásamt öðrum starfsmanni en eftir aðkomu íslenska hópsins að rekstrinum hefur fjárhagslegur grundvöllur heimilisins verið tryggður.

„Þegar ég kom fyrst gaf ég þeim tyggjó og þau trylltust. Núna eru allir komnir í skóla, í föt, það var rosalegur viðsnúningur þegar börnin fengu nýja skó fyrstu jólin eftir að við tókum við. Það var ný vídd fyrir þau,“ segir Einar.

Eins fámennur stuðningshópur og hægt er

Fjörutíu stuðningsfjölskyldur mynda hópinn að baki reksturs barnaheimilisins. Einar segir þetta vera venjulegar fjölskyldur sem leggja fram fimm þúsund króna framlag á mánuði. Allur peningurinn sem safnist fari rakleiðis út til reksturs heimilisins en aðilar úr hópnum heimsækja barnaheimilið reglulega og standa þá sjálfir undir kostnaði vegna ferðarinnar.

Hópurinn ætlar að koma saman á Kjarvalsstöðum á morgun klukkan þrjú og segir Einar alla sem hafa áhuga vera velkomna. Samtökin ætla að bæta við tíu stuðningsfjölskyldum á næstunni, en hámarksfjöldi fjölskyldna er 50. En hvers vegna að draga línuna þar? „Facebook-hópurinn er þess eðlis að við viljum að hann sé smár. Þar birtum við persónulegar upplýsingar og myndir svo við viljum vera eins fá og við getum,“ segir Einar og bætir við að rekstur barnaheimilisins sé milliliðalaus og án aðkomu stórra hjálparsamtaka.

Barnaheimilið er rekið í samráði við nepölsk félagsmálayfirvöld á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Segir Einar að eftir að íslenski hópurinn hafi tekið yfir reksturinn hafi útgjöldin hækkað. „Stjórnvöld báðu okkur um að taka við fleiri börnum og höfum við tekið við þremur í viðbót,“ segir Einar. Eitt þeirra er veikt svo lækniskostnaður hefur hækkað töluvert að hans sögn. Einar minnir á að fimm þúsund krónur geri ekki mikið hér á landi en muni miklu í Nepal. 

Að neðan má sjá Facebook-færslu samtakanna og geta áhugasamir kynnt sér starfsemi samtakanna nánar á fundinum á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert