BSRB fjölgar íbúðum ásamt ASÍ

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, á aðalfundinum í gær.
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, á aðalfundinum í gær. Ljósmynd/BSRB

BSRB ætlar ásamt Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) að stofna íbúðafélag sem ætlað er að byggja og leigja út íbúðir fyrir tekjulægri hópa. Leggur bandalagið til 20% stofnframlag til nýs félags, alls tvær milljónir króna. BSRB mun óska eftir því við aðildarfélög sín að þau veiti íbúðafélaginu lán til að koma framkvæmdum af stað. Fyrirætlanirnar voru kynntar á aðalfundi BSRB í gær.

Frétt mbl.is: 1.000 leiguíbúðir fyrir tekjulága

Stefnt er að því að samþykkja frumvarp Eyglóar Harðardóttur, húsnæðis- og félagsmálaráðherra, um almennar félagsíbúðir á Alþingi í næstu viku en frumvarpið er nú hjá velferðarnefnd. Í samtali við mbl.is í gær sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, vinnu nefndarinnar vera á lokastigi og stefnt væri að því að koma frumvarpinu fyrir Alþingi sem fyrst þannig að hægt sé að afgreiða frumvarpið fyrir sumarfrí.

Frétt mbl.is: 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum

Verði frumvarpið að lögum er stefnt að því að fjölga íbúðum á leigumarkaði um 2.300 á næstu fjórum árum en til verkefnisins verður varið árlega 1,5 milljörðum kr. á tímabilinu. Á aðalfundi BSRB í gær skoraði fundurinn á stjórnvöld að ljúka þessum nauðsynlegu lagabreytingum til þess að hægt sé að stofna íbúðafélagið.

Framhaldið ákveðið eftir að frumvarpið verður samþykkt

Brjánn Jónsson, kynningarfulltrúi BSRB, segir það ekki liggja fyrir hvenær íbúðafélagið verður stofnað. Fyrst þarf að samþykkja frumvarpið á Alþingi og í framhaldinu verði ákveðið um framhaldið í samvinnu við ASÍ. Hann segir það heldur ekki liggja fyrir hvort starfsemi íbúðafélagsins verði aðeins á höfuðborgarsvæðinu eða hvort það verði um land allt.

Á aldarafmæli ASÍ undirrituðu sambandið og Reykjavíkurborg samning vegna íbúðafélagsins. Reykjavíkurborg mun leggja félaginu til lóðir og býður félagið upp á leiguhúsnæði á hagstæðu verði fyrir tekjulágar fjölskyldur. Skv. frumvarpinu mun ríkið leggja til 18% af stofnvirði íbúða sem falla undir kerfið, sveitarfélag 12% og mótaðili 70%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert