Búast ekki við röskunum í nótt

Upplýsingafulltrúi Isavia segir að innritun, vegabréfaeftirlit og vopnaleit hafi gengið …
Upplýsingafulltrúi Isavia segir að innritun, vegabréfaeftirlit og vopnaleit hafi gengið eins og smurt þrátt fyrir mikinn fjölda farþega á sama tíma. Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ný vakt tekur við flugumferðarstjórn á Keflavíkurflugvelli í nótt og enginn hefur tilkynnt um veikindi. Fulltrúi Isavia segir því að ekki sé búist við röskun á flugi eins og var í morgun og gær. Upp í tveggja tíma seinkun var á flugi í morgun og búast má við einhverjum seinkunum síðdegis.

Annan daginn í röð seinkaði öllum flugferðum um Keflavíkurflugvöll í morgun vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Tveir flugumferðarstjórar sem áttu að vera á vakt í nótt og fyrrinótt tilkynntu veikindi og vegna yfirvinnubannsins fékkst enginn í stað þeirra. Því var umferð um völlinn takmörkuð við neyðar- og sjúkraflug frá kl. 2 til 7.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að upp í tveggja tíma seinkun hafi orðið á áætlunum flugfélaga í morgun. Fjöldi véla lenti á sama tíma en þrátt fyrir það segir Guðni að þjónustan á vellinum hafi gengið ótrúlega vel enda hafi hún verið vel undirbúin.

„Innritun, vegabréfaeftirlit og vopnaleit gekk mjög smurt. Það var vel mannað alls staðar, bæði í farþegaþjónustu, vegabréfaeftirliti og annars staðar þannig að það skilaði sér,“ segir Guðni.

Önnur vakt tekur við flugumferðarstjórninni í nótt og Guðni segir að enginn hafi tilkynnt um veikindi. Því sé ekki búist við neinu núna í nótt.

Áhrif á um sextíu flug íslensku félaganna

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að búast megi við einhverjum seinkunum á síðdegisflugi félagsins vegna seinkunarinnar í morgun. Hann áætlar að þær raski um þrjátíu flugferðum félagsins í dag með tilheyrandi óþægindum fyrir farþega.

Hann segir mikið hafa gengið á í flugstöðinni í morgun. Allar vélarnar hafi lent eftir klukkan sjö og þá hafi fólk streymt inn á flugvöllinn á sama tíma.

Sömu sögu var að segja hjá Wow Air. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins, segir að sjö brottfarir félagsins í morgun hafi raskast. Það komi til með að hafa keðjuverkandi áhrif fram eftir degi. Samtals hafi takmarkanirnar á umferð um Keflavíkurflugvöll í nótt haft áhrif á 29 flugferðir félagsins í dag.

Enn langt á milli deiluaðila

Yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra hefur staðið yfir frá 6. apríl. Kjaradeila félagsins við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Isavia hefur verið á borði ríkissáttasemjara en viðræður hafa staðið yfir frá því í nóvember.

Guðni segir að ekki hafi verið fundað í deildunni síðan í síðustu viku og ekki hafi verið boðað til annars fundar. Búast megi við að það verði gert í næstu viku. Hann er hins vegar ekki bjartsýnn á framhaldið. Langt sé á milli aðila. SA leggi áherslu á Salek-rammann en flugumferðarstjórar geri kröfur um launahækkanir sem fari langt út fyrir hann.

„Aðilar hafa ekki nálgast mikið,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert