Staðfesti dóm vegna fólskulegrar árásar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur dæmdi í gær að dómur héraðsdóms skyldi vera óraskaður yfir karlmanni á þrítugsaldri sem var dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir fólskulega árás á annan karlmann fyrir utan söluturn í Reykjanesbæ, en áður höfðu þrír karlmenn ráðist að brotaþola og var hann því mjög blóðugur á þeim tíma sem ákærði réðst að honum.

Hæstiréttur taldi brot mannsins þó eiga við um 217 grein almennra hegningarlaga, en héraðsdómur hafði áður dæmt manninn fyrir brot á 218 grein sömu laga. Munar þar um að Hæstiréttur taldi brot mannsins ekki jafn mikil eins og kemur fram í 218 grein laganna, en þar er um að ræða mikilsháttar líkamsárás.

Saksóknari í málinu hafði áfrýjað héraðsdómi og farið fram á þyngri refsingu í málinu og er meðal annars vísað til þess að árásin hafi verið fólskuleg og beinst að ölvuðum og blóðugum manni sem var illa leikinn eftir árás þremenninganna rétt fyrir árás ákærða.

Hæstiréttur taldi rétt að láta niðurstöðu héraðsdóms standa óraskaða og staðfesti einkakröfu brotaþola, en honum voru dæmdar rúmlega 400 þúsund krónur í héraði í skaðabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert