Flugmaður sýndi stórkostlegt gáleysi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í gær að skerða eigi um helming rétt flugmanns flugvélar sem brotlenti við Selá í Vopnafirði árið 2009 til slysatryggingabóta. Hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.

Ágreiningur flugmannsins og Tryggingamiðstöðvarinnar, sem vátryggði flugvélina, laut að því hvort flugslysið yrði rakið til stórkostlegs gáleysis flugmannsins við stjórn vélarinnar þannig að TM væri heimilt að skerða greiðslu bóta til hans úr slysatryggingu flugmanns vegna slyssins.

Héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að TM væri óheimilt að skerða slysabætur til mannsins samkvæmt vátryggingunni.

Fyrir lá að TM hafði þegar greitt þriðjung bótanna en taldi sér heimilt að skerða bætur til flugmannsins um tvo þriðju hluta. Í dómi Hæstaréttar kom fram að sú háttsemi flugmannsins að fljúga vélinni langt undir lágmarksflughæð og skammt frá jörðu, þar sem mannvirkja hefði verið að vænta, fæli í sér slíkt frávik frá þeirri háttsemi sem mælt væri fyrir um í þágildandi auglýsingu nr. 55/1992 um setningu flugreglna, að háttsemin yrði metin sem stórkostlegt gáleysi.

Við mat á því hvort og þá að hvaða marki skyldi skerða rétt flugmannsins til bóta úr slysatryggingunni, var litið til þess að sakarstig hans hefði verið hátt og að háttsemi hans hefði verið eina orsök slyssins. Gott veður hefði verið þegar slysið varð og aðstæður til flugs góðar. Þá hefðu engin merki verið um alkóhól í blóði flugmannsins. Loks hefðu afleiðingar slyssins fyrir hann verið stórfelldar.

Með heildstæðu mati samkvæmt framansögðu var réttur flugmannsins til slysatryggingabóta því skertur um helming.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert