Ákjósanlegra að ganga lengra

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt. mbl.is/Kristinn

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi dómari við Hæstarétt, segir það ánægjuleg tíðindi að samþykkt hafi verið að stofna millidómsstig hér á landi. Hann bindur vonir sínar við að breytingin muni létta af Hæstarétti málaálagi sem sé stærsti vandinn sem íslenskt réttarkerfi hefur átt við að stríða undanfarin ár.

Hann segir hins vegar að í leiðinni hefði verið ákjósanlegt að ganga að sumu leyti lengra í þá átt sem stefnt er að, með því að treysta fordæmisgildi dóma Hæstaréttar og um leið að einfalda kerfið.

Frétt mbl.is: Frum­varp um milli­dóm­stig samþykkt

„Þetta er áreiðanlega til mikilla bóta og auðvitað vona ég, eins og aðrir, að breytingin leiði til þess að það myndist skapleg vinnubrögð í æðsta dómstól þjóðarinnar sem við eigum svo mikið undir. Það hefur ríkt hálfgert neyðarástand þarna í mörg ár – að mínu mati með hræðilegum niðurstöðum í einstökum málum – og vonandi lagast það við þetta,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Fækki dómurum niður í fimm

Jón Stein­ar sendi alþingis­mönn­um bréf fyrr í vetur þar sem hann lagði til nokkrar breytingar á frumvörpum ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um dómstóla og lögum um meðferð einkamála og um meðferð sakamála.

Í fyrsta lagi lagði hann til að fækka ætti dómurum í Hæstarétti niður í fimm, en ekki hafa þá sjö eins og lögin gera ráð fyrir. Þeir ættu þá að dæma í öllum málum. Það væri til þess fallið að styrkja fordæmisgildi dómanna.

Fjöldi mála er allt of mikill hjá Hæstarétti, að mati …
Fjöldi mála er allt of mikill hjá Hæstarétti, að mati Jóns Steinars. mbl.is/Brynjar Gauti

Í öðru lagi vill Jón Steinar að meginreglan verði sú að ekkert mál fari nema á tvö dómstig eins og verið hefur, en ekki þrjú eins og gert er ráð fyrir í lögunum. Hæstiréttur ætti að ákveða hvort hann taki mál til meðferðar, þá annaðhvort með beinu málskoti af fyrsta dómstigi eða með því að heimila aðila að höfða mál sitt fyrir millidómstiginu. 

„Það þyngir kerfið og lengir málsmeðferðartímann að gera ráð fyrir að þau mál sem ganga til Hæstaréttar fari þangað á þriðja dómstig,“ segir hann.

Leggi nöfn sín við atkvæði

Jón Steinar nefnir einnig að breyta þurfi reglum um samningu dómsatkvæða í Hæstarétti með þeim hætti að dómarar leggi nöfn sín við atkvæði. „Ég tel að það sé mjög til aðhalds um vönduð vinnubrögð þegar dómarar skrifa atkvæðin undir nafni eins og víða tíðkast erlendis.“ Dómarar gætu auðvitað látið við það sitja að vísa til forsendna annars dómara en þeir þyrftu að leggja nafn sitt við.

Jón Steinar segir reyndar að nefnd sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði árið 2013 hafi lagt til í sínum tillögum að hver dómari semdi sínar eigin forsendur undir nafni, en einhverra hluta vegna hafi það verið tekið út úr frumvarpinu. „Það er áreiðanlega fyrir áhrif dómaranna sem nú sitja í Hæstarétti því það er eins og þeir vilji geta falið sig í hópnum, eins og ég hef orðað það. Það átti ekkert að láta það eftir þeim.“

Afnemi áhrif sitjandi dómara

Þá bendir hann á að eftir eigi að endurskoða einn þátt sem skiptir mjög miklu máli: reglur um skipan nýrra dómara við Hæstarétt. Ráðherra eigi eftir að leggja fram frumvarp þess efnis á þingi.

„Að mínu mati þurfa tvö grundvallaratriði að vera í lagi í því frumvarpi. Í fyrsta lagi á Hæstiréttur engin áhrif að hafa á skipan nýrra dómara að réttinum. Og ekki heldur rétt til tilnefningar í einhverja umsagnarnefnd. Í öðru lagi er það ráðherra sem á að taka ákvörðun um skipan nýs dómara. Það er ekki hægt að framselja það vald til einhverrar umboðslausrar stjórnsýslunefndar eins og nú er. Ég tel að það sé jafnvel brot á stjórnarskránni að fela nefnd, sem er tilnefnd af einhverjum mönnum úti í bæ, vald til þess í raun og veru að ákveða hver verður næsti hæstaréttardómari. Það getur ekki verið. Það hlýtur að vera ráðherra sem ber samkvæmt lögum ábyrgð á sínum stjórnarathöfnum og hann verður að taka ákvörðun um það hver verður dómari.

Þó er auðvitað í góðu lagi og sjálfsagt að umsagnarnefnd sé honum til halds og trausts.“

mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert