Læknar með skrautlegustu hendurnar

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Mikilvægi sýkingavarna á nútímasjúkrahúsum verður ekki of oft áréttað. Sérstaklega er mikilvægt fyrir okkur sem glímum við áskoranir í húsnæðismálum að huga að því sem við getum sjálf gert til að minnka líkur á spítalasýkingum,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í reglulegum pistli sínum í dag. Áhrifaríkasta leiðin í þeim efnum sé handþvottur.

„Sýkingavarnadeild spítalans hefur unnið að vitundarvakningu um mikilvægi handþvottar, eins og vonandi flestir hafa orðið varir við. Áherslan er á réttan handþvott og það að fólk beri ekkert handskart, enda vel þekkt að sýkingavaldar leynast helst á höndum þeirra sem slíkt bera,“ segir Páll. Deildin hafi nýverið unnið samantekt þar sem fram hafi komið að þrjár deildir, vökudeild, fæðingarvakt og K2, hafi náð þeim árangri að enginn starfsmaður bæri handskart.

„Af verri endanum voru þau tíðindi að sú stétt sem hvað skrautlegust er til handanna eru kollegar mínir, læknar, og tróna þannig á vafasömum toppnum. Þó er áríðandi að fram komi að allar stéttir hafa bætt sig verulega hvað þetta varðar frá því að sýkingavarnadeild hóf sitt árvekniátak.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert