Mjög framarlega í rafrænu eftirliti

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir að einu breytingarnar sem nefndin gerði á frumvarpi innanríkisráðherra um fullnustu refsinga hafi verið að fjölga dögum sem brotamenn gætu fengið í rafrænt eftirlit úr 30 dögum í 60 daga fyrir fyrsta árið.

Í frumvarpi um fullnustu refsinga, sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi í mars sl., var hámarksfjöldi daga undir rafrænu eftirliti aukinn úr 240 dögum í 360 en fyrri löggjöf var frá 2011 þegar rafrænt eftirlit kom fyrst inn í lög.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis.

Segir Unnur að í frumvarpsdrögunum hafi verið reikniregla sem byggði á því að brotamenn fengju fimm daga fyrir hvern mánuð í dóm og taldi allsherjarnefnd að fyrir 360 daga ættu brotamenn að fá 60 daga í rafrænu eftirliti en ekki 30 líkt og sérfræðinganefndin lagði til. Kom allsherjarnefnd fram með breytingartillögu um að færa dagafjölda úr 30 í 60 og var breytingartillagan samþykkt á þingi sem varð síðar að lögum.

„Þetta virkaði eins og villa og við lögðum til þessa breytingu,” segir Unnur Brá og bætir við að með breytingunni séu þeir sem fá styttri dóma að fá hlutfallslega jafnmarga daga undir rafrænu eftirliti.

Fagnar rýmri heimildum en setur spurningarmerki við tímasetninguna

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, velti upp spurningum varðandi tímasetningu breytinganna í samtali við RÚV og mbl.is. Segir hann breytingarnar koma öllum föngum til góða en efnahagsbrotamönnum hlutfallslega best. Hann fagnar þó almennt séð rýmri heimildum til rafrænnar afplánunar fanga.

Frétt mbl.is: Fangar svara Helga Gunnlaugs

Í yfirlýsingu sem Afstaða, félag íslenskra fanga, sendi frá sér í gær var fullyrðingum Helga um að breytingar á lögum um fullnustu refsinga hafi „verið sérhannaðar að hvítflibbaglæpamönnum“ hafnað.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. mbl.is

Sagði formaður félagsins, Guðmundur Ingi Þóroddsson, að það hafi verið samdóma álit sérfræðinganefndar sem skipuð var af þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra að rétt væri að gera strax breytingar á lögum um fullnustu refsinga með það að markmiði að fjölga úrræðum og rýmka fullnustu utan fangelsa. Helgi sat í nefndinni sem skilaði af sér niðurstöðum á síðasta kjörtímabili.

Að sögn Helga er það rétt að nefndin hafi viljað rýmka úrræðin, en í fjölmiðlum undanfarna daga hafi hann aðeins velt fyrir sér tímasetningunni, þ.e. að frumvarpið hafi legið ósnert í langan tíma en hafi verið keyrt hratt í gegn og með mun rýmri heimildum til rafræns eftirlits en nefndin lagði til á sínum tíma.  Sér í lagi þar sem breytingarnar hafi komið efnahagsbrotamönnum strax til góða.

Frétt mbl.is: Lausir af Kvíabryggju

Segist hann t.a.m. hafa viljað ganga lengra varðandi heimildir fíkniefnabrotamanna til þess að afplána undir rafrænu eftirliti þannig að umræddir brotamenn hefðu rétt til helmings afplánunar undir rafrænu eftirliti eins og margir aðrir. Ekki var gengið svo langt heldur geta fíkniefnabrotamenn afplánað undir rafrænu eftirliti eftir að hafa afplánað 2/3 hluta refsingar sinnar.

Ísland gengur nú einna lengst í rafrænu eftirliti

Helgi segir að breytingarnar á lögum um fullnustu refsinga, sem samþykktar voru í mars á þessu ári, geri það að verkum að Ísland sé í hópi þeirra þjóða sem hafi gengið einna lengst í að koma á rafrænu eftirliti í stað fangelsisvistar. „Í sjálfu sér get ég bara fagnað því en þetta hefur gerst hratt. Fyrstu skrefin lofa mjög góðu,“ segir Helgi en segir að síðustu skref hafi verið heldur stór skref að stíga á einu bretti.

Hann segir að afstaða Afstöðu í málinu sé því skiljanleg og ítrekar að hann sé fylgjandi þessari rýmkun sem var lögð til og gagnrýni hans hafi ekki verið beint að rýmri heimildum heldur hafi hann aðeins velt upp tímasetningunni og varað við því að stíga svona stór skref í einu.

„Guðmundur sér sína samfanga njóta góðs af þessu en í þessari bylgju sem kemur núna fram staldrar maður aðeins við,“ segir Helgi. Bætir hann við að kannski hafi bara þurft svona þekkta brotamenn til þess að velta þessum steini, þ.e. knýja breytingarnar á lögum í gegn enda hafi frumvarpið legið í skúffu í nokkur ár áður en það var samþykkt og breytingarnar smellpössuðu fyrir efnahagsbrotamenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert