Ökumenn húsbíla fresti för sinni

Talsvert hvasst er um suðvestanvert landið en fram kemur á vefsíðu Vegagerðarinnar að þótt vindstyrkur hái ef til vill ekki almennri umferð sé full ástæða fyrir ökumenn húsbíla, eða annarra tækja sem ekki þola mikinn vind, að fresta för. 

Fram kemur á vefsíðu Veðurstofu Íslands að búast megi við snörpum vindhviðum við fjöll vestanlands og ökumenn með aftanívagna ættu því að fara varlega á þeim slóðum. Gert er ráð fyrir sunnanátt næsta sólarhringinn, 13-20 metrum á sekúndu, og hvassast við fjöll vestanlands.

Þá er spáð súld eða dálítilli rigningu á landinu og talsverðri úrkomu á Vesturlandi. Hægara og úrkomulítið verður hins vegar norðan- og austanlands. Á morgun verður hins vegar hæg sunnanátt og léttskýjað norðan- og austanlands en skýjað og rigning vestast.

Hiti verður víða á bilinu 8-13 stig en 15-20 stig norðaustantil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert