Skallaði lögreglumann í andlitið

mbl.is/Hjörtur

Maður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, en hann var fundinn sekur um að hafa ráðist að lögreglumanni með ofbeldi við afgreiðsluborð fangamóttöku lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu og skallað hann þungu höggi í andlitið.

Vankaðist lögreglumaðurinn og fékk roða og bólgu við húð hægra megin við miðju á milli augnbrúna og niður á nefrót.

Fram kemur í dómsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að ákærði sótti ekki þing.

„Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði áður hlotið refsingu og þá fyrir auðgunarbrot, umferðarlagabrot og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þau brot hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar nú. Ákærði var í apríl 2011 dæmdur í 30 daga fangelsi, m.a. fyrir líkamsárás sem varðaði við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákvörðun refsingar hans var frestað skilorðsbundið í tvö ár og hélt hann það skilorð. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að atlaga hans var gegn opinberum starfsmanni sem var að gegna skyldustörfum. Hann var undir áhrifum er hann framdi brot sitt en það verður ekki virt honum til málsbóta, sbr. 17. gr. laganna,“ segir í úrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert