Ákærður fyrir að slá lögreglukonu í andlitið

Maðurinn réðst að lögreglukonu við skyldustörf á síðasta ári.
Maðurinn réðst að lögreglukonu við skyldustörf á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður fyrir að hafa í júní í fyrra veist að lögreglu við skyldustörf, meðal annars gripið utan um báða handleggi og háls lögreglukonu og reynt að þvinga hana út af heimili sínu. Þá veitti maðurinn lögreglukonunni áverka með hnefahöggi í andlitið.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa fyrst óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að nema staðar þar sem hann var á ferð akandi í Ólafsvík föstudagskvöldið 5. júní á síðasta ári. Ók maðurinn heim til sín þar sem akstrinum lauk, en hann er svo ákærður fyrir að hafa reynt að þvinga lögreglukonu við skyldustörf út af heimili sínu.

Í ákærunni er því lýst að hann hafi gripið um báða handleggi hennar og reynt að þvinga hana út og síðar gripið um háls hennar og annan upphandlegg og ýtt henni svo hún lenti á hurðarkarmi og vegg uns hún féll í gólfið. Sást á lögreglukonunni eftir átökin.

Þá veittist maðurinn stuttu síðar að lögreglukonunni og sló hana hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu yfir augabrún og augnlok.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert