Spurði um barn sem hann átti ekki

Regnbogaland er frístundaheimili Foldaskóla.
Regnbogaland er frístundaheimili Foldaskóla. Þorkell Þorkelsson

Ókunnugur maður kom á Regnbogaland, frístundaheimili Foldaskóla í Grafarvogi, sl. þriðjudag og spurði um barn sem hann virðist ekki hafa nein tengsl við. Lögreglu hefur verið tilkynnt um málið.

„Maðurinn kom og spurði eftir barni með nafni og honum var þá sagt að krakkarnir væru enn þá í skólanum,“ segir Elfa Hrund Þórisdóttir, forstöðumaður Regnbogalands. Starfsfólk hafi haldið áfram að sinna sínum störfum og þegar það kom til baka hafi maðurinn verið horfinn.

„Við höfðum samband við foreldra barnsins og þá kom í ljós að það voru engin tengsl þar á milli,“ segir Elfa Hrund. Í kjölfarið hafi verið haft samband við lögreglu og málið verið tilkynnt öllum þeim foreldrum sem eiga börn í Regnbogalandi. Þá hafi starfsfólk farið vandlega yfir alla öryggisverkferla.

„Barn fer ekki heim með neinum nema það sé foreldri eða ef viðkomandi einstaklingur er á tengiliðalista sem foreldrarnir hafa sjálfir gefið okkur.“ Eina undantekningin frá þessu sé þegar tilkynning hafi borist frá foreldrum um að einhver tiltekinn einstaklingur eigi að sækja barnið einhvern ákveðinn dag. „Börnin fara ekki heim með neinum öðrum,“ segir Elfa Hrund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert