Sumarið lætur sjá sig eftir helgi

Nokkuð hlýtt hefur verið á norðaustanverðu landinu síðustu daga og …
Nokkuð hlýtt hefur verið á norðaustanverðu landinu síðustu daga og verður áframhald á. Myndin er úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Áfram verður hlýtt og þurrt veður á norðaustanverðu landinu um helgina eins og undanfarna daga. Áfram verður einhver væta vestan til en vindur á að ganga niður. Eftir helgi á sumarið hins vegar að láta á sér kræla víðar um landið með hlýrra og bjartara veðri, að sögn veðurfræðings Veðurstofunnar.

„Það er ágætisveður um helgina. Þessi vindur og rigning gengur niður hérna vestanlands á morgun. Það er alveg 15–20 stiga hiti á norðaustanverðu landinu svo það verður bara hlýtt,“ segir Þorsteinn V. Jónsson veðurfræðingur.

Smá væta verður hins vegar vestast á landinu á morgun en gengur niður undir kvöld og aftur aðeins á sunnudag. Annars verður bjart og léttir til fyrir norðan og austan. Á sunnudag gerir Þorsteinn ráð fyrir bjartviðri og hægum vindi nema allra vestast.

Næsta vika virðist lofa góðu. Þorsteinn segir að eftir helgi lægi og hlýni smám saman um allt landið. Hitinn verði víða 15–20 stig í innsveitum landsins. Þá verði nánast úrkomulaust.

„Sumarið er svona aðeins farið að láta sjá sig. Það er mjög góð spá eftir helgina, að minnsta kosti með tilliti til hlýinda og útiveru,“ segir hann.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert