Taka mismikið tillit til leigutekna

Ef fólk hyggst fjárfesta í húsnæði með auka íbúð eða …
Ef fólk hyggst fjárfesta í húsnæði með auka íbúð eða herbergi til að leigja út, getur skipt sköpum hvar það fer í greiðslumat. mbl.is/Ómar Óskarsson

Viðskiptabankarnir þrír; Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, taka mismikið tillit til leigutekna í greiðslumati vegna húsnæðiskaupa. Landsbankinn horfir alfarið fram hjá leigutekjum, Íslandsbanki tekur 50% leigutekna með í reikninginn en hjá Arion banka er horft á hvert tilfelli fyrir sig.

mbl.is sendi viðskiptabönkunum skriflega fyrirspurn og fékk ofangreind svör. Þá var óskað eftir rökstuðningi og allir vísuðu í túlkun Fjármálaeftirlitsins varðandi áhættuvog útlána með veði í fullbúnu íbúðarhúsnæði.

Þar segir m.a. að ein af forsendum þess að nota megi 35% áhættuvog á lán tryggð að fullu með veði í fullbúnu íbúðarhúsnæði á Íslandi sé að „greiðslugeta lántakanda sé ekki verulega háð tekjum af eigninni.“

Íslandsbanki eini bankinn sem horfir til ákveðins hlutfalls

Svar Landsbankans við spurningu mbl.is; „Að hversu miklu leyti tekur Landsbankinn tillit til leigutekna í greiðslumati vegna húsnæðiskaupa?“, var einfalt: „Ekki er tekið tillit til leigutekna af fasteign við mat á greiðslugetu vegna lána til íbúðakaupa.“

Þá var vísað til áðurnefndrar kröfu sem fram kemur í túlkun FME.

Í svari Arion banka sagði m.a. að almennt væru áætlaðar leigutekjur af því húsnæði sem til stendur að kaupa ekki teknar með í greiðslumati, þar væri fyrst og fremst horft til sjálfsaflatekna kaupanda.

„Hins vegar er það svo að hvert tilfelli er skoðað fyrir sig og standi kaupandinn að mestu leyti undir greiðslubyrði lánanna þá er hægt að horfa til þess að væntar leigutekjur af húsnæðinu muni leiða til þess að kaupandinn geti staðið undir greiðslubyrði lánanna. Leigutekjur af eigninni sem til stendur að festa kaup á geta hins vegar ekki verið uppistaðan í greiðslugetu kaupandans.“

Hrein ný útlán stóru viðskiptabankanna þriggja til fasteignafélaga drógust saman …
Hrein ný útlán stóru viðskiptabankanna þriggja til fasteignafélaga drógust saman um einn milljarð króna í fyrra. Samsett mynd/Eggert

Íslandsbanki er einn um það að horfa til leigutekna í greiðslumati og hafa fast viðmið; 50%.

Í svari bankans segir m.a.: „Ef um er að ræða leigutekjur af hluta þess húsnæðis sem verið er að lána út á þá tekur bankinn 50% af þeim leigutekjum með í greiðslumat. Skilyrði er að leigusamningur sé þinglýstur.“

Þá er áréttað að þegar rætt er um leigutekjur sé alltaf átt við leigutekjur að frádregnum skatti.

Traustar tekjur

Afstöðu bankanna til leigutekna í greiðslumati er áhugavert að skoða í ljósi stöðunnar á húsnæðismarkaði, en ætla má að leigutekjur séu meðal traustustu tekna í dag.

Í skýrslu Alþýðusambands Íslands um stöðu og horfur á leigumarkaði, sem gefin var út sl. haust, segir m.a. að spurn eftir húsnæði á viðráðanlegum kjörum sé mikil en framboð af skornum skammti. Það megi rekja til ýmissa þátta.

„Til að mynda sjá margir leigusalar frekar hag sinn í því að bjóða íbúð sína til skamms tíma ferðamönnum í stað þess að bjóða á almennum leigumarkaði. Þetta verður til þess að framboð skerðist til almennings og leiguverð hækkar,“ segir í niðurstöðum.

Þá er í skýrslunni einnig vísað til þeirra ströngu reglna sem gilda um greiðslumat hjá lánastofnunum, sem valda því að fólk á erfitt með að fóta sig á húsnæðismarkaðnum.

Hvað varðar fyrrnefnda túlkun FME fjallar hún um skilyrði þess að lán geti fallið undir 35% áhættuvog í stað 75% áhættuvogar. Áhættuvogin segir til um það hversu mikið eigið fé bankinn þarf að binda vegna viðkomandi láns, en í lögum er gerð krafa um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja og áhættuminna eignasafn auðveldar fjármálastofnunum að mæta eiginfjárkröfunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert