Tímamót í íslenskri réttarsögu

Með tilkomu millidómstigs fær Hæstiréttur meiri tíma til að sinna …
Með tilkomu millidómstigs fær Hæstiréttur meiri tíma til að sinna fordæmisgefandi hlutverki sínu. mbl.is/Ernir

Frumvörp Ólafar Nordal innanríkisráðherra um stofnun millidómstigs, sem Alþingi samþykkti í gær, fela í sér sögulegar breytingar á íslenskri réttarskipan. Komið er á fót nýrri dómstólaskipan í landinu með þriggja þrepa dómskerfi og nýjum málsmeðferðarreglum. Dómstigin hafa verið tvö allt frá stofnun Hæstaréttar Íslands árið 1920.

Ef litið er til Vesturlanda er Ísland eina landið þar sem dómstigin eru aðeins tvö, héraðsdómstólar og svo Hæstiréttur. Það horfir hins vegar til breytinga.

Stofnun millidómstigs er talin fela í sér mikla réttarbót. Með því er tryggð milliliðalaus sönnunarfærsla á tveimur dómstigum, í samræmi við alþjóðlegar kröfur, bæði í einka- og sakamálum, og þá verður álagi létt af Hæstarétti, en það hefur verið talið meira en góðu hófi gegnir á undanförnum árum.

Alþingi samþykkti í gær, með 46 samhljóða atkvæðum, annars vegar breytingar á lögum um dómstóla og hins vegar breytingar á lögum um meðferð einkamála og meðferð sakamála.

Með breytingunum verður til nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur. Dómstigin í landinu verða þá þrjú: héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur, sem verður áfram æðsti dómstóll ríkisins.

Í lögunum er gengið út frá því að öll dómsmál hefjist á fyrsta dómstigi, hjá héraðsdómstólunum. Einn dómstóll, Landsréttur, verður starfræktur á millidómstigi fyrir landið allt og verður hann eins konar áfrýjunardómstóll. Hann mun endurskoða niðurstöður héraðsdóma, líkt og Hæstiréttur gerir í dag.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Sem fæst mál fari á öll dómstig

Miðað er við að sem allra fæst dómsmál komi til meðferðar á öllum þremur dómstigunum. Verður þannig dómum Landsréttar eingöngu áfrýjað með leyfi Hæstaréttar að uppfylltum tiltölulega þröngum skilyrðum. Einnig verður þröng heimild til að áfrýja héraðsdómi í einkamáli beint til Hæstaréttar ef þörf er á skjótri niðurstöðu í máli og að uppfylltum fleiri skilyrðum, meðal annars að ekki sé ágreiningur um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar. Heimilt verður að skjóta málum héraðsdóms til Landsréttar en takmarkanir á því verða sambærilegar því sem nú gildir varðandi málsskot til Hæstaréttar.

Þá verður meginreglan sú að aðilar eiga kost á að framkvæma munnlega sönnunarfærslu fyrir Landsrétti eftir því sem nauðsynlegt þykir, hvort sem er með því að taka skýrslur af nýjum vitnum eða viðbótarskýrslur af þeim sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Eins munu sérfróðir meðdómsmenn taka sæti í dómi í Landsrétti í málum þar sem sérkunnáttu er þörf. Málsmeðferðin fyrir Landsrétti á að öðru leyti að vera svipuð og nú er fyrir Hæstarétti.

Fimmtán dómarar munu eiga sæti við Landsrétt og er gert ráð fyrir að þrír dómarar taki þátt í meðferð hvers máls. Samhliða því er gert ráð fyrir að dómurum við Hæstarétt fækki úr níu í sjö og að fimm dómarar taki hverju sinni þátt í meðferð máls, þó þannig að heimilt verði að skipa dóm sjö dómurum í undantekningartilvikum. Þá er lagt til að dómurum í héraði verði fjölgað úr 38 í 42.

Dómurum við Hæstarétt mun fækka úr níu í sjö.
Dómurum við Hæstarétt mun fækka úr níu í sjö. mbl.is/Brynjar Gauti

Ærin verkefni framundan

Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2018. Það er því dágóður tími til stefnu enda eru undirbúningsverkefnin ærin: skipa þarf fjölda dómara, ráða starfsmenn og jafnframt finna nýtt húsnæði undir dómstólinn, en hann á að hafa aðsetur í Reykjavík.

Sam­kvæmt lögunum verður sam­eig­in­leg stjórn­sýsla allra þriggja dóm­stiga færð und­ir nýja, sjálf­stæða stjórn­sýslu­stofn­un, dóm­stóla­sýsl­una, og stjórn­sýsla dóm­stól­anna þar með efld og sjálf­stæði þeirra styrkt.

Milliliðalaus sönnunarfærsla tryggð

Röksemdirnar fyrir því að koma á fót millidómstigi hafa einkum verið tvenns konar: Annars vegar að tryggja það sem kallað hefur verið milliliðalausa sönnunarfærslu og hins vegar að létta álagi af Hæstarétti.

Í reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu felst að sá dómari sem dæmir mál taki skýrslur af ákærða og vitnum og jafnframt eru önnur sönnunargögn borin undir hann. Dómarinn á með öðrum orðum að kynnast af eigin raun þeim sönnunargögnum sem færð eru fram í málinu. Eins og nú háttar fara skýrslutökur aðeins fram í héraðsdómi, þó að reyndar sé heimilt að leiða vitni fyrir Hæstarétt í sakamálum. Það leiðir til þess að Hæstiréttur á erfitt með að leggja mat á trúverðugleika vitna þegar hann tekur afstöðu í málum. Það getur verið bagalegt, enda ræðst niðurstaðan oft að miklu leyti af framburði vitna, sakbornings eða brotaþola, sér í lagi í sakamálum.

Þess má raunar geta að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið að milliliðalaus sönnunarfærsla sé liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Álagi létt af Hæstarétti

Frá stofnun hefur Hæstiréttur verið hefðbundinn áfrýjunardómstóll. Hann hefur endurskoðað niðurstöðu héraðsdóma. Á undanförnum misserum hefur álagið á réttinn verið mikið – meira en nokkru sinni áður – og eru dæmi um að einstakir dómarar hafi dæmt í um 350 málum yfir árið. Mörg þessara mála eru afar flókin og umfangsmikil og hafa áhyggjur manna, sér í lagi lögmanna, aukist viðvíkjandi því að dómararnir hafi einfaldlega ekki tök á því huga nægilega vel að hverju máli áður en það er dæmt.

Stofnun millidómstigs á að draga úr þessu álagi og skapa dómurum Hæstaréttar betri aðstæður til að sinna veigamiklum og fordæmisgefandi málum.

Gert er ráð fyrir að sem fæst mál fari á …
Gert er ráð fyrir að sem fæst mál fari á öll dómstigin þrjú. mbl.is/Ernir

Lengi kallað eftir millidómstigi

Lengi hefur verið kallað eftir því að komið yrði á fót millidómstigi. Um langt skeið voru hér þrjú dómstig en í kjölfar þess að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki árið 1918 og Hæstiréttur Íslands var stofnaður 1920 urðu dómstigin tvö. 

Á áttunda áratug síðustu aldar komu upp hugmyndir um að taka upp millidómstig og var frumvarp þess efnis, svonefnt Lögréttufrumvarp, ítrekað lagt fram en ekki náði það fram að ganga. Var meginmarkmið frumvarpsins að hraða meðferð dómsmála og auka aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds.

Áratugina eftir það lá hugmyndin um millidómstig í dvala en segja má að umræðan hafi aftur kviknað fyrir um tíu árum. Það var síðan árið 2010 að fjögur fagfélög lögfræðinga skoruðu á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Í kjölfarið skipaði ráðherra vinnuhóp til að fylgja erindinu eftir og var niðurstaða hópsins, sem lá fyrir um mitt ár 2011, skýr: Brýn þörf væri á stofnun millidómstigs.

Nefnd um millidómstig, sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði sumarið 2013, skilaði fyrstu drögum að frumvarpi sem kvað á um stofnun millidómstigs í mars 2015. Var efni frumvarpsins, sem síðar varð að lögum, byggt á ítarlegri skýrslu vinnuhópsins frá 2011 og frumvarpsdrögunum sem og þeim ýmsu athugasemdum sem hafa borist.

Snerta allt samfélagið

En hvaða áhrif munu breytingarnar hafa? Ljóst er að þær snerta allt samfélagið, en þó kannski fyrst og fremst þá sem leita þurfa eftir úrlausn dómstóla. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu, sem síðar varð að lögum, segir að færri mál muni gefa Hæstarétti svigrúm til að vanda enn frekar til dómsúrlausna og þá verði loksins mögulegt að viðhafa milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi og þar með unnt að endurskoða mat á sönnunargildi munnlegra framburða, eins og áður var fjallað um.

Þessar breytingar, sem og reyndar fleiri, feli í sér verulegar réttarbætur og séu til þess fallnar að auka gæði dóma og þar með stuðla að auknu trausti samfélagsins á dómskerfinu.

Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, orðaði það einmitt svo í samtali við mbl.is í gær að breytingarnar yrðu til þess að Hæstiréttur fengi nú meiri tíma til að sinna fordæmisgefandi hlut­verki sínu og muni eðli starfa dóm­ara því breyt­ast. Dómsmál fengju vandaðri meðferð og réttaröryggi borgaranna ykist þar með.

Sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga verður færð undir nýja stofnun …
Sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga verður færð undir nýja stofnun á vegum dómstólanna, dómstólasýsluna. mbl.is/Ómar

Aukin fjárútlát

Millidómstigið er þó óhjákvæmilega til þess fallið að auka fjárútlát ríkisins til dómskerfisins og lengja málsmeðferðartíma í þeim tiltölulega fáu málum sem Hæstiréttur mun taka til meðferðar. Í lögunum er reynt að sporna við þessum neikvæðu áhrifum með því að meðal annars stytta áfrýjunarfresti, gera málsmeðferðina fyrir Landsrétti eins einfalda og kostur er og hafa kæruheimildir til Hæstaréttar tiltölulega þröngar.

Heildarkostnaðaráhrif millidómstigs eru metin á 596 milljónir króna. Þar af er launakostnaður áætlaður 488 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að í Landsrétti starfi 32,5 starfsmenn. Þar af eru 15 dómarar, skrifstofustjóri auk 17,5 stöðugilda annarra starfsmanna. Annar kostnaður er áætlaður 108 milljónir króna, þar af 91 milljón króna húsnæðiskostnaður sem felst í leigu allt að 1.700 fm húsnæðis undir starfsemina auk almenns rekstrarkostnaðar húsnæðis.   

Er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs umfram gildandi fjárlög 2016 muni aukast um 76 milljónir króna árið 2017 og 560 milljónir króna árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert