„Vegan?“

Sturla Jónsson.
Sturla Jónsson. Ljósmynd/ Aðsend

Sturla Jónsson svaraði spurningum úr athugasemdakerfi Nova á Facebook í beinni í dag.

Meðal annars var Sturla spurður um hvert hans fyrsta verk yrði, kæmi til þess að hann tæki við embætti forseta.

„Það væri að láta ráðherra leggja fram frumvarp um afnám á verðtryggingunni og beita fyrir mig 25. grein stjórnarskrárinnar,“ svaraði Sturla, og vísaði þar í grein um að forseti geti látið leggja fram frumvörp á Alþingi. Sagðist hann ekki ætla að skipa þingmenn sem ráðherra og að það væri ein þeirra leiða sem fær væri til að vinda ofan af spillingu.

„Maður á náttúrulega ekki að svara spurningu með spurningu en það er spurning hvort þú þekkir fólk sem hefur misst ofan af sér húsið sitt eða lent í vandræðum eða ýmsu öðru,“ svaraði Sturla til þegar hann var spurður að því af hverju fólk ætti að kjósa hann fram yfir aðra frambjóðendur.

„Ég er náttúrulega búinn að lenda í ýmsum málum eins og þúsundir annarra Íslendinga, en allir hinir frambjóðendurnir eru ekki búnir að lenda í því sama og fólkið. Ég er búinn að fara utan til að reyna að sjá mér og mínum farborða og það gekk ágætlega en fjölskyldan vildi ekki koma út svo ég varð að vera hér áfram og byrjaði þá að berjast fyrir heimilin í landinu.“

Sturla fór yfir víðan völl eins og venjan er í Nova-viðtölunum. Inntur eftir áliti sínu á kvótakerfinu sagði hann það einfaldlega vera „mannréttindabrot“, í ljós kom að hann hefur ekki áhuga á dýrahaldi, hefur ekki myndað sér skoðun um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, er jafnréttissinni fremur en femínisti og konan hans sér um að „dressa hann upp“.

Þá var hann spurður um hvað honum þætti um viðhorf vegan-fólks til dýravelferðar. 

„Vegan?“ svaraði Sturla, óviss um efnið, og var þá upplýstur um að orðið tengdist grænmetisætum. 

„Mér finnst gott að borða kjöt en hins vegar er fólk að tala um sláturaðferðir og annað slíkt. Ég er mjög ósáttur við hvernig er komið fram við dýrin þegar verið er að slátra þeim, það má klárlega gæta að dýrunum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert