Vonar að þetta hiti upp allt svæðið

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Baltasar Kormákur, eigandi RVK Studios, …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Baltasar Kormákur, eigandi RVK Studios, skrifuðu undir samning um kaup kvikmyndafyrirtækisins á fasteignum í Gufunesi. mbl.is/Styrmir Kári

Reykjavíkurborg og RVK Studios skrifuðu í dag undir samning um kaup kvikmyndafyrirtækisins á fjórum fasteignum í Gufunesi.  Kaupverðið var 301 milljón króna og fær RVK Studios húsin afhent 1. ágúst nk. Samningurinn er þó gerður með fyrirvara um mengun á svæðinu.

„Ég leyni því ekkert að ég vona að þetta hiti upp allt svæðið,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er þeir Baltasar Kormákur, eigandi RVK Studios, undirrituðu samninginn.

„Okkar vonir eru að aðrir í kvikmyndabransanum komi og verði hérna með okkur,“ sagði Baltasar. „Þetta ekki hugsað bara fyrir RVK Studios, heldur vonum við að íslenski kvikmyndabransinn geti sameinast hér í framtíðinni.“

Húsin sem um ræðir eru gamla áburðarverksmiðjan, stöðvarhúsið, skemma og síló og fær RVK Studios fasteignirnar afhentar 1. ágúst nk. „Við erum búin að gera samning við Íslenska gámafélagið um flutning þeirra í áföngum upp á Esjumela og hluti af þeim samningum felst í hreinsun svæðisins,“ sagði Dagur. Heilmikil vinna sé því fram undan hjá starfsmönnum gámafélagsins, en þeir séu með öflugt fyrirtæki sem vinni að hreinsuninni.

Byrji að mynda á næsta ári

Að sögn Baltasars má telja líklegt að RVK Studios byrji að nota kvikmyndaverið á næsta ári. „Þetta er mjög hrátt og mér finnst ólíklegt að við byrjum að vinna hérna fyrr en 2017.“ Það fari hins vegar allt eftir verkefnastöðu og hversu miklar lagfæringar þurfi að ráðast í, en Ófærð 2 kunni að vera með fyrstu verkefnum sem þar verði unnin.

„Við höfum ekki náð að skoða húsin nákvæmlega þar sem það er enn mikið inni í þeim, en um leið og búið er að hreinsa þau og við höfum fengið þau afhent þá getum við ráðist í að meta hvað þurfi að gera og hvert kostnaðarmatið verði.“

Áherslan verður á að standsetja gömlu áburðarverksmiðjuna í upphafi, enda á kvikmyndastúdíóið að vera þar til húsa. „Áður en svo verður þarf hins vegar fyrst að hreinsa til, sjá til þess að húsið leki ekki, loka öllu og gera þetta að aðlaðandi vinnuumhverfi.“

Baltasar segir aðrar byggingar síðan hugsanlega verða notaðar undir skrifstofuaðstöðu, bíósali og annað slíkt. „Það verður hins vegar alveg feykileg vinna og ég get ekki alveg sagt hvenær við komumst í það.“ Fyrst þurfi að teikna upp svæðið og fjármagna frekari framkvæmdir.  Þá hafi RVK Studios vilyrði fyrir frekari uppbyggingu í allt að þrjú ár eftir að deiliskipulag tekur gildi. „En það var ósk okkar að við gætum byggt upp meira.“

Fyrirvari um mengun í jörð

Samningur Reykjavíkurborgar og RVK Studios er gerður með fyrirvara um mengun á svæðinu og Dagur segir það einfaldlega vera eitt af því sem þurfi að sinna.

„Það er fyrirvari um mengun í jörð í samningnum og við gerðum það af því að það var áburðarverksmiðja hérna,“ segir Baltasar og bætir við að engar forsendur séu þó til að telja að ekki sé allt í lagi.

„Við ætlum að vera með græna starfsemi hérna, þannig að við viljum vera með á hreinu að það séu ekki einhver efni í jörð sem ekki er hægt að fjarlægja. Það er líka mikilvægt gagnvart okkar samstarfsaðilum úti að búið sé að gera slíka rannsókn, vegna fyrri starfsemi í húsinu og að við getum bent á hana,“ segir hann. Borgin mun að hans sögn taka að sér frekari hreinsun reynist hennar þörf.

Þegar er farið að vinna í rannsókninni og hreinsun svæðisins og segir Baltasar þá vinnu vera öllum til sóma. „Þetta er líka alveg yndislegt svæði þegar gengið er eftir fjörunni og það verður sómi af því að fólk geti notið útivistar hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert