175 nemendur brautskráðir

Stúdentar frá FÁ vorið 2016.
Stúdentar frá FÁ vorið 2016. Ljósmynd/Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Brautskráning Fjölbrautaskólans við Ármúla fór fram í gær en brautskráðir voru 175 nemendur af 14 námsbrautum. Þar af 88 stúdentar og 79 úr heilbrigðisgreinum. Flestir nemendur voru brautskráðir af félagsfræðabraut eða 39 og í heilbrigðisgreinum voru flestir brautskráðir af tanntæknabraut eða 20. Þá brautskráði skólinn í fyrsta sinn 16 nemendur af námsbraut sótthreinsitækna að þessu sinni.

„Hæstu einkunn allra útskriftarnemenda hlaut Renata Paciejewska af heilbrigðisritarabraut en hún var með meðaleinkunnina 9,96. Árangurinn hjá Renötu er einstaklega glæsilegur í ljósi þess að íslenska er hennar annað tungumál en pólska móðurmál. Dúx skólans af stúdentsbrautum var Sólbjört María Jónsdóttir af náttúrufræðibraut og fékk hún jafnframt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og þýsku,“ segir í fréttatilkynningu.

Kveðjuávörp að lokinni útskrift fluttu þau Hrafnhildur Jónsdóttir fyrir hönd útskriftarnema heilbrigðisskólans og Adam Óttarsson fyrir hönd nýstúdenta. Þór Breiðfjörð Kristinsson leikari og söngvari flutti kveðju 25 ára afmælisstúdenta. Tæplega 2000 nemendur stunduðu nám við skólann á vorönn.

Brautskráðir nemendur úr heilbrigðisgreinum við FÁ vorið 2016.
Brautskráðir nemendur úr heilbrigðisgreinum við FÁ vorið 2016. Ljósmynd/Fjölbrautaskólinn við Ármúla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert