Frumsýna fótbolta-óperu

Ljósmynd/ Menningarhús Kópavogs

Fjölskyldur sem elska tónlist og fótbolta ættu ekki að láta fjölskyldustund dagsins í Salnum, Kópavogi, fram hjá sér fara. Stundvíslega kl. 13 í dag hefst nefnilega frumflutningur á FótboltaÓperunni eftir Helga Rafn Ingvarsson. Sex einsöngvarar, trommuleikari og félagar úr Skólakór Kársness flytja óperuna sem er 10 mínútur að lengd.

„Að flutningi loknum verður farinn leiðangur um baksvið Salarins þar sem hinn knái Jón Svavar Jósefsson mun leiða börnin um og segja frá undirbúningi söngvara áður en þeir stíga á svið,“ segir í tilkynningu skipuleggjenda.

„Jón Svavar mun gefa vel valin tóndæmi á sviði Salarins og í lok leiðangurs syngja með börnunum. Foreldrar geta því horft á börn sín stíga á svið í Salnum með einum ástsælasta baritónsöngvara landsins. Að lokinni dagskrá í Salnum má svo bregða á leik og sparka bolta á útivistarsvæði Menningarhúsanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert