Hátt í 20 stig fyrir norðan og austan

Svona er spáin klukkan 14 í dag.
Svona er spáin klukkan 14 í dag. Skjáskot/Veðurstofan

Fyrir norðan og austan gæti hiti náð langleiðina í 20 stig í dag. Hiti á Egilsstöðum gæti farið upp í 17 stig í dag og hiti á Akureyri gæti náð 16 stigum. Heiðskírt verður á báðum stöðum, samkvæmt staðaspá Veðurstofu Íslands, og hægur vindur.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi verður í dag minnkandi suðlæg átt þar sem skilin, sem færðu hellirigninguna og hvassviðrið á V-landi í gær, eru komin rétt út af landinu. Þó verður áfram hvasst á Snæfellsnesi fram að hádegi með tilheyrandi vindhviðum. Þá má búast við skýjuðum degi og jafnvel dálítilli rigningu eða súld sunnan- og vestanlands. Á morgun snúa skilin aftur og nær úrkoman á ný inn á landið vestanvert þó að vindur verði ekki mikill. Útlit er fyrir að það þykkni upp um landið norðanvert annað kvöld. 

Eftir helgi stefnir í hæglætisveður og góðar líkur eru á að sjáist til sólar í öllum landshlutum en stöku síðdegisskúrir gætu látið sjá sig í vikunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:
Hægviðri, skýjað með köflum og líkur á síðdegisskúrum. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast í uppsveitum sunnanlands.

Á þriðjudag:
Suðaustlæg átt, 3–10 m/s, og skýjað með köflum, en stöku skúrir SV-lands. Hiti 10 til 16 stig. 

Á miðvikudag:
Sunnankaldi og dálítil væta við vesturströndina, en annars hægviðri og bjart með köflum. Hlýnar í veðri. 

Á fimmtudag og föstudag:
Hæg vestlæg eða breytileg átt, víða bjartviðri og áfram hlýtt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert