Hvers virði er mannslífið?

Mótmælendur í Barcelona í síðasta mánuði, krefjast þess að meðferð …
Mótmælendur í Barcelona í síðasta mánuði, krefjast þess að meðferð við lifrarbólgu C sé aðgengileg öllum þeim sem hafa smitast. AFP

Mikil framþróun hefur verið í gerð lyfja sem geta læknað lifrarbólgu C á síðustu árum, sem hefur veitt þeim milljónum sem eru með sjúkdóminn von um lækningu. Lyfin eru hins vegar dýrari en svo að hinn almenni borgari hafi efni á þeim og meira að segja heilbrigðiskerfi efnameiri ríkja hika við að veita nema þeim allra veikustu lyfin.

Ógnarhár lifrarbólgulyfjakostnaður var meðal þeirra málefna sem rædd voru á fundi G7-ríkjanna nú í lok vikunnar. Þessi skilvirku lifrarbólgulyf frá bandaríska líftæknilyfjaframleiðandanum Gilead Sciences eru eitt dæmið af mörgum um þá erfiðu siðferðisspurningu um það hvers virði mannslífið sé í bókum stjórnvalda þeirra ríkja sem nú reyna að beita aðhaldsaðgerðum.

Tóku yfir sjúkrahús í þrjá mánuði í mótmælaskyni

Á Spáni voru haldin fjölmörg mótmæli, til að fá yfirvöld þar í landi til að samþykkja að sjúklingum stæðu nýju lifrarbólgumeðferðirnar til boða.  Spítali nokkur í Madrid var m.a. tekinn yfir af mótmælendum í þrjá mánuði þar til stjórnvöld ákváðu að veita veikustu lifrarbólgusjúklingunum lyfið.

Til þessa hafa nærri 52.000 af þeim 475.000 Spánverjum sem eru með lifrarbólgu C hafið hina nýju lyfjameðferð. En að sögn Cristobal Montoro Romero, fjármálaráðherra Spánar, er sú ákvörðun spænskra stjórnvalda að kaupa lyfin ein af ástæðum fjárlagahalla síðasta árs.

Sömu sögu er að segja í Frakklandi, en stjórnvöld þar í landi greiddu um 1,5 milljarða evra, eða um 210 milljarða króna, fyrir nýju lyfin frá því um mitt ár 2014 og þangað til í júní í fyrra. Hafa þau nú tilkynnt að þau ætli að gera lyfið aðgengilegt fyrir alla þá Frakka sem eru með lifrarbólgu C.

Í Þýskalandi ráðstöfuðu stjórnvöld 1,3 milljörðum evra (182 milljörðum króna) í lifrarbólgulyfin á síðasta ári og veldur hár meðferðarkostnaðurinn því nú að þau velta því fyrir sér að setja lög um málið.

Fjármálaráðherra Spánar, Cristobal Montoro Romero (t.h.), segir fjárlagahalla síðasta árs …
Fjármálaráðherra Spánar, Cristobal Montoro Romero (t.h.), segir fjárlagahalla síðasta árs m.a. mega rekja til kaupa á lifrarbólgulyfjum. AFP

Áfall fyrir heilbrigðisútgjöld

„Þetta er áfall fyrir heilbrigðisútgjöld margra ríkja,“ sagði Valerie Paris, sérfræðingur í heilbrigðismálum við Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD), við AFP-fréttastofuna.
„Þetta er harkaleg vakning fyrir efnameiri þjóðir heims,“  bætir Yannis Natsis við, en hann starfar hjá Evrópska lýðheilsusambandinu (European Public Health Alliance).
„Þetta er ekki umræða sem við höfum átt áður, nema þá kannski í tilfelli Afríku og eyðni.“ 

Vandinn er slíkur að Francois Hollande, forseti Frakklands, tók málið upp á fundi G7-ríkjanna í Japan síðasta fimmtudag, samkvæmt ónefndum heimildamanni innan frönsku utanríkisþjónustunnar.

Öllum býðst meðferð á Íslandi

Hár kostnaður vegna lifrarbólgulyfja er hins vegar ekki vandi sem íslensk stjórnvöld þurfa að hafa áhyggjur af þó að talið sé að hátt í 1.000 manns séu smitaðir hér á landi en í byrjun þessa árs gerðu Landspítalinn og líftæknilyfjaframleiðandinn Gilead með sér samning um að allir sem eru smitaðir af lifrarbólgu C geti fengið lyfið Halvoni, sér að endurgjaldslausu.

„Forsenda fyrir því að það er hægt að bjóða svona stórum hópi meðferð er sú að lyfjafyrirtækið er tilbúið að láta lyfið af hendi án endurgjalds og það er ólíklegt að farið hefði verið í svo stórt verkefni ef það hefði ekki komið til,“ segir Sigurður Ólafsson meltingarlæknir.  

„Það er ný nálgun að bjóða öllum meðferð, því víðast hvar er verið að velja úr þá sem t.d. eru komnir með mikla lifrarskemmd og eiga á hættu að fá skorpulifur,“ segir hann og kveður verkefni hafa farið vel af stað, en hugmyndin að baki verkefninu er að kanna hvort hægt sé að útrýma lifrarbólgu C hér á landi. „Við erum ánægð með hvernig hefur til tekist til þessa og það er allstór hópur kominn á meðferð og sumir meira að segja búnir.“ 

Samningur er í gildi milli Landspítalans og Gilead um að …
Samningur er í gildi milli Landspítalans og Gilead um að allir sem eru smitaðir af lifrarbólgu C geti fengið lyfið Halvoni, sér að endurgjaldslausu. Ómar Óskarsson

Hálf milljón deyr árlega

Gera má ráð fyrir að á milli 130 og 150 milljónir manna um heim allan séu með lifrarbólgu C, en sjúkdómurinn getur leitt til bæði skorpulifrar og krabbameins. Að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) deyja um 500.000 manns úr lifrabólgu C á ári hverju.

Líftæknilyfjafyrirtækið Gilead setti sína fyrstu útgáfu af lifrarbólgulyfinu Sovaldi á markað árið 2013, en með  lyfinu má lækna 90% þeirra sem sýkst hafa  af lifrabólgu C. Sovaldi hefur þó þurft að taka ásamt öðrum lifrarbólgulyfjum, en hefur engu að síður þótt vera mikilvægur vendipunktur í meðferð gegn lifrarbólgu C, þar sem því fylgja minni aukaverkanir en af eldri og minna virkum lyfjum.

„Ég varð svo þunglyndur að ég hugleiddi að fremja sjálfsmorð,“ sagði hinn spænski Antonio Rodriguez, en eldri lyfin gerðu húð hans svo viðkvæma að hann gat ekki verið úti í sólinni.
Sovaldi-lyfjameðferðin var þó ekki ókeypis, því 12 vikna lyfjameðferðin kostaði 56.000 evrur, eða 7,8 milljónir króna.

Samkvæmt upplýsingum frá samtökum lifrarbólgusjúklinga á Spáni er kostnaður við meðferðina nú kominn niður í 13.000 evrur (1,8 milljónir kr.) eftir að önnur lyfjafyrirtækið fóru að veita Gilead samkeppni. 

Árið 2014 setti Gilead hins vegar á markað lifrarbólgulyfið Harvoni, sem þeim Íslendingum sem greinst hafa með lifrarbólgu C stendur til boða, og þeir sem það fá þurfa ekki að taka nema eina pillu á dag.

Nýja meðferðin læknaði Rodriguez af lifrabólgunni, en hann fékk lyfin þó ekki nógu snemma.  „Þegar þeir sögðu mér að ég væri ekki lengur með lifrarbólgu C fagnaði ég fréttunum með fjölskyldu minni. En fögnuðurinn var ljúfsár, því að ég er núna kominn með krabbamein,“ sagði hann.

Keypti einkaleyfið fyrir 11 milljarða dollara

Gilead eignaðist mólekúlið sofosbuvir,  sem lyfin Sovaldi og Harvoni eru búin til með, þegar fyrirtækið reiddi fram ellefu milljarða dollara fyrir einkaleyfi Pharmasset árið 2011.
Strax 2014 var Gilead búið að ná inn kostnaðinum vegna kaupanna og voru gagnrýnendur fyrirtækisins þá fljótir að benda á að þá væri lag fyrir Gilead að lækka lyfjaverðið.

Lyfjafyrirtæki eru hins vegar dugleg við að benda á að lyf á borð við Sovaldi og Harvoni svari kostnaði og benda á að þau bjargi bæði mannslífum og spari heilbrigðisyfirvöldum fjárhæðir sem annars færu í meðferðarkostnað.

„Verð fyrir lifrarbólgulyf Gilead er mismunandi milli landa og byggist verðið á því hversu mikil byrði sjúkdómurinn er,  sem og fer það eftir efnahag landsins og því hversu stjórnvöld eru staðráðin í að veita mörgum meðferðina,“ segir í tilkynningu frá Gilead.

Að sögn Sophie Thiebaut, hagfræðiprófessors við Carlos III-háskólann í Madrid, sem kynnt hefur sér málið, eru samningar milli ríkisstjórna og lyfjafyrirtækja hins vegar ógagnsæir og oft má draga í efa skilvirkni rannsóknannna sem liggja til grundvallar kostnaðinum.  

Ódýrara fyrir fátækari ríki

Gilead hefur hins vegar bent á að fyrirtækið hafi boðið lyfið ódýrara í löndum sem búa við rýrari efnahag. Þannig sé Sovaldi t.d. selt fyrir minna en 1.000 evrur, eða 140.000 krónur, í Egyptalandi þar sem töluverður fjöldi hefur greinst með lifrarbólgu C.

Þá hefur fyrirtækið einnig veitt ellefu indverskum lyfjafyrirtækjum leyfi til að framleiða samheitalyf sem selja má í þróunarlöndum.

Paris, sérfræðingur OECD í heilbrigðismálum, telur ríki Evrópusambandsins hins vegar geta samið í sameiningu við Gilead og náð þannig lyfjaverðinu niður.  Þá vilja samtökin Doctors of the World, að komið verði á leyfisskyldu sem geri stjórnvöldum kleift að heimila framleiðslu samheitalyfs í trássi við óskir einkaleyfishafans.

Samtök evrópskra lyfjafyrirtækja eru hins vegar þeirrar skoðunar að einkaleyfin séu hryggjarstykki lyfjaiðnaðarins. Einkaleyfisvernd veiti þeim sem þróa ný lyf þá tryggingu sem þeir þurfa til að leggja fram háar fjárhæðir og áralanga vinnu til að sanna að nýtt lyf sé öruggt og áhrifaríkt.

Samningur er í gildi milli Landspítalans og Gilead um að …
Samningur er í gildi milli Landspítalans og Gilead um að allir sem eru smitaðir af lifrarbólgu C geti fengið lyfið Halvoni, sér að endurgjaldslausu. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert