Íslensk eldfjöll frekar áhrifalítil

Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010.
Eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. mbl.is/Júlíus

Þrátt fyrir að gosið í Eyjafjallajökli árið 2010 hafi valdið gífurlegum truflunum á flugi víðs vegar um Evrópu og eldgosið í Lakagígum árið 1783 hafi dælt gríðarlegu magni af brennisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið, og valdið veðurbreytingum á norðurhveli jarðar, eru íslensk eldfjöll alla jafna nokkuð áhrifalítil þegar kemur að hitastigsbreytingum jarðarinnar og valda þau síður langtímaáhrifum en eldgos nær miðbaugi. Þetta segir Michael E. Mann, loftslagsvísindamaður, sem hélt fyrirlestra í Háskóla Íslands í gær í tengslum við Earth 101-verkefnið.

Í samtali við mbl.is fór Mann yfir loftslagsbreytingar í heiminum, ástæður og afleiðingar þeirra. Meðal atriða sem hann hefur rannsakað eru áhrif eldgosa og þeirra efna sem eldgos losa í andrúmsloftið.

Mann segir að Lakagígagosið hafi vitanlega haft kælandi áhrif á andrúmsloftið í heiminum, meðal annars vegna veðuraðstæðna á þeim tímapunkti. Aftur á móti sé mun algengara að eldgos nær miðbaugi hafi mikil og víðtæk áhrif á hitastig á jörðinni en þau sem eru nær pólsvæðunum.

Michael Mann hefur rannsakað áhrif eldgosa á hitastig jarðar og …
Michael Mann hefur rannsakað áhrif eldgosa á hitastig jarðar og loftlagsbreytingar. mbl.is/Ragnar Axelsson

Þannig nefnir hann áhrif frá Krakatá í Indónesíu árið 1883, Tambora í Indónesíu árið 1816 og Pinatubo í Mexíkó árið 1991 og segir áhrif þeirra meiri en frá eldgosum norðar á hnettinum. Ástæðan fyrir því er margslungin. Þegar stór eldgos eiga sér stað spúa þau miklu magni brennisteinsdíoxíðs og öðrum ögnum upp í heiðhvolfið sem er í 10–50 kílómetra hæð. Ef agnirnar ná upp í þessa hæð haldast þær þar jafnvel í nokkur ár. Agnirnar endurkasta sólarljósi í auknum mæli þannig að minna sólarljós kemst alla leið niður á jörðina. Það veldur því að stór eldgos geta leitt til kólnunar á jörðinni í einhvern tíma, eins og gerðist í fyrrnefndum gosum, þar á meðal í Lakagígagosinu 1783.

Ríkjandi vindstraumar á jörðinni liggja frá miðbaugi í átt að pólunum og því er líklegra, þegar gos eiga sér stað nær pólunum, að áhrifin verði takmörkuð við pólsvæðin og að agnirnar safnist saman nær öðrum hvorum pólnum, á meðan gos nær miðbaugi valda því að þessar agnir dreifast um mun stærra svæði og hafa áhrif víðar um hnöttinn.

Mann segir að vegna hlýnunar jarðarinnar hafi stundum verið nefnt að hægt væri með lífverkfræði að skjóta miklu magni af brennisteinsdíoxíði upp í heiðhvolfið til að draga úr hlýnuninni. Einnig hafi ítrekað verið nefnt að breytingar sem nú séu á hitastigi geti verið leiðréttar með nokkrum stórum eldgosum. Mann segir þessar skýringar eða leiðir óraunhæfar til að breyta þróun hnattrænnar hlýnunar. Þannig segir hann að til þess að koma í veg fyrir þá hlýnun sem nú eigi sér stað þyrfti að verða eldgos á stærð við Pinatubo annað hvert ár og að það sé hreinlega ekki að fara að gerast. Þá séu lífverkfræðilegar tilraunir á þeim skala sem nefndar eru hér að ofan líklegar til að leiða til annarra óæskilegra áhrifa sem ekki sé hægt að sjá fyrir.

Aska frá Eyjafjallajökulsgosinu dreifðist mjög víða eftir að gosið spjó …
Aska frá Eyjafjallajökulsgosinu dreifðist mjög víða eftir að gosið spjó henni marga kílómetra upp í andrúmsloftið. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert