Mæðgin verðlaunuð við útskrift

Mæðginin eru væntanlega lukkuleg með árangurinn.
Mæðginin eru væntanlega lukkuleg með árangurinn. Ljósmynd/ Tækniskólinn

Mæðginin Elín Sigríður Harðardóttir og Hrafn Logi Hermannsson luku bæði námi frá Tækniskólanum í gær, hún af hönnunarbraut og hann af tölvubraut, en auk þess að ljúka námi á sama tíma hlutu þau bæði verðlaun fyrir góðan árangur á sinni braut.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Tækniskólanum. Útskriftin fór fram í Eldborgarsal Hörpu í gær og var sú fjölmennasta á vegum skólans frá upphafi. Alls voru 423 nemendur skráðir til útskriftar, þar af um 30 frá Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Dúxinn að þessu sinni var Anna Kristín Ólafsdóttir sem útskrifaðist með einkunnina 9,85.

Anna Kristín Ólafsdóttir dúxaði.
Anna Kristín Ólafsdóttir dúxaði. Ljósmynd/ Tækniskólinn

Anna Kristín er þrítug móðir og lærði grafíska miðlun við Upplýsingatækniskólann. Hún stefnir að því að klára samninginn í grafískri miðlun. Samkvæmt fréttatilkynningu Tækniskólans mun hún einbeita sér að móðurhlutverkinu í sumar og verja tíma með tveggja ára dóttur sinni og fjölskyldu.

Jón B. Stefánsson skólameistari flutti hátíðarræðu við athöfnina og vék meðal annars að fagháskólastigi og nauðsyn þess að fá það viðurkennt. Tækniskólinn hefur um árabil boðið upp á nám á fjórða stigi, líkt og við Margmiðlunarskólann og Vefskólann, nám til háskólaeininga þar sem nemendur hafa tækifæri til þess að ljúka viðbótarnámi til BA-prófs við erlenda háskóla.     

Verðlaunahafar við útskrift Tækniskólans.
Verðlaunahafar við útskrift Tækniskólans. Ljósmynd/ Tækniskólinn.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert