MR-dúxinn stefnir á læknisfræði

Stefanía var með 9,67 í meðaleinkunn.
Stefanía var með 9,67 í meðaleinkunn. Ljósmynd/ Stefanía Katrín

Stefanía Katrín Finnsdóttir hefur ekki mikinn tíma til að ræða í símann þegar blaðamaður mbl.is nær af henni tali. Hún er nefnilega stödd í eigin útskriftarveislu og er í ofanálag dúx ársins frá MR, með 9,67 í meðaleinkunn.

„Ég er auðvitað búin að vinna rosa hart að þessu öll árin en þetta kom samt á óvart,“ segir Stefanía sem viðurkennir þó að árangurinn hafi líklega ekki komið fjölskyldu sinni mikið á óvart.

Hún segir skipulag og áhuga vera lykilinn að námsárangri sínum en hún var á brautinni eðlisfræði 1 og hefur mestan áhuga á efnafræði og stærðfræði, þótt hún kunni ekki að útskýra nákvæmlega hvað það er við raunvísindin sem heilli. Spurð hafnar hún því þó alfarið að dugnaðinum fylgi félagsskítsstimpill.

„Nei alls ekki, þetta er ekki þessi staðlaða MR-ímynd sem fólk hefur af því að maður sitji bara heima allan daginn að læra og geri ekki neitt annað. Ég er búin að vera að læra á píanó, tók framhaldspróf þar og svo er ég búin að taka fullan þátt í öllu félagslífi þó að ég hafi ekki verið í neinum störfum innan skólafélagsins.“

Það færist sífellt í aukana að fólk taki sér andrými að námi loknu en Stefanía hefur þegar fest auga á næsta markmiði sínu í námi, því hún hyggst þreyta inntökupróf í læknisfræði í júní.

„Maður er náttúrulega ágætlega undirbúinn eftir stúdentsprófin, annars er það bara að lesa. Mér finnst fagið mjög heillandi. Þetta er skemmtilegt nám sem sameinar allt það sem ég hef áhuga á; líffræði, efnafræði og svoleiðis, en svo hugsa ég líka að þetta sé gefandi starf sem er gaman að vinna við. Ég er bara spennt að byrja á næsta áfanga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert