Ræddi símanotkun nemenda

Frá brautskráningu FG.
Frá brautskráningu FG. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Brautskráning fór fram við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Garðabæjar í dag að viðstöddu fjölmenni. Dúx skólans varð Helga Margrét Höskuldsdóttir sem útskrifaðist af tveimur brautum skólans, bæði listnáms- og alþjóðabraut, með einkunnina 9,04 að meðaltali. Fjölmargir nemenda náðu mjög góðum árangri í námi sínu og voru þeim veitt verðlaun fyrir góða vinnu.

Skólameistari FG, Kristinn Þorsteinsson, kom víða við í ræðu sinni og ræddi meðal annars góðar og slæmar hliðar á snjallsímanotkun nemenda. „Á Vesturlöndum og líklega víðar eru kennarar að velta fyrir sér hvernig nám og símanotkun fer saman. Við gerum okkur grein fyrir því að þessi tækni er komin til að vera og það er ekki líklegt til árangurs að horfa alveg framhjá tækni framtíðarinnar þegar eitt meginhlutverk skóla er að búa nemendur undir þessa sömu framtíð.“

Vísaði Kristinn í könnun sem gerð hefði verið á meðal nemenda en samkvæmt henni teldu tæp 40% sig hafa náð betri árangri í námi ef símanotkunin hefði verið minni. Tæpur helmingur væri ennfremur hlynntur því að símanotkun væri takmörkuð í kennslustundum. Það væru því ekki aðeins kennarar sem hefðu áhyggjur af of mikilli símanotkun nemenda. Upplýsingatækni væri hins vegar notuð með virkum hætti í FG og í mörgum áföngum væru símar notaðir á mjög jákvæðan hátt.

Samtals útskrifuðust 83 að þessu sinni og þar af 69 með stúdentspróf. Tuttugu útskrifuðust af listnámsbrautum, 14 af náttúrufræðibraut, 13 af félagsfræðabraut, átta af viðskiptabrautum, sex af alþjóðabrautum, fimm af íþróttabraut og þrír af hönnunar- og markaðsbraut. Þá voru útskrifaðir fimm nemendur af leikskólaliðabraut, fjórir af starfsbraut, tveir með lokapróf fyrir stuðningsfulltrúa og einn nemandi með lokapróf af framhaldsskólabraut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert