Þrjátíu og fimm nýir sjúkraliðar

Stærsti verknámshópurinn voru sjúkraliðar, en alls útskrifuðust 35 af brautinni.
Stærsti verknámshópurinn voru sjúkraliðar, en alls útskrifuðust 35 af brautinni. ljósmynd/Jóhannes Long

Þrjátíu og fimm nemendur útskrifuðust af sjúkraliðabraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 25. maí sl. en það er stærsti verknámshópurinn sem útskrifaðist úr skólanum. Alls útskrifuðust 150 nemendur frá skólanum, en athöfnin fór fram í Silfurbergi Hörpu. 

Þar af voru 78 nemendur með stúdentspróf. Auk sjúkraliðanna útskrifuðust 17 af húsasmiðabraut, 11 af rafvirkjabraut og 7 af snyrtibraut. Einnig útskrifuðust 7 nemendur af starfsbraut.

Flestum verðlaunum sópaði til sín Martyna Laura Kapszukiewicz af listnámsbraut en hún var dúx skólans, fékk verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi svo og verðlaun í dönsku og ensku. Þá hlaut hún einnig viðurkenningu frá Soroptimistakúbbi Hóla og Fella og verðlaun úr Styrktarsjóði Kristínar Arnalds, fyrrverandi skólameistara FB, fyrir bestan árangur í íslensku.

Andrés Wolanczyk af íþróttabraut hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á stúdentsprófi í íþróttafræði og íþróttagreinum, raungreinum og stærðfræði. Sigrún María Jónsdóttir af félagsfræðabraut hlaut verðlaun frá Rótarýklúbbi Breiðholts fyrir þátttöku í félagsstörfum.

Emil Steinar Björnsson fékk viðurkenningu fyrir mestar framfarir á námstímanum á starfsbraut. Donata Nutautaité hlaut verðlaun fyrir bestan árangur á sjúkraliðabraut. Samtök iðnaðarins veittu verðlaun fyrir burtfararpróf í iðngreinum og þau hlutu Birgir Haraldsson, húsasmiðabraut, Sævar B. Ólafsson, rafvirkjabraut, og Hólmfríður M. Benediktsdóttir, snyrtibraut.

Þá sló rokkhljómsveitin Storyteller í gegn í athöfninni að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá skólanum, en hljómsveitina skipa nemendur skólans ásamt tveimur gestaspilurum.

Martyna tekur við verðlaunum frá skólameistara, Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur.
Martyna tekur við verðlaunum frá skólameistara, Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur. ljósmynd/Jóhannes Long
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert