„Við erum að hlusta á Noreg!“

Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, við Reykjavíkurhöfn.
Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar, við Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Eggert

Landhelgisgæslan hefur þurft að glíma við afar sérstök talstöðvarskilyrði frá því í nótt og áfram í morgun sökum háþrýstisvæðis sem nær frá Færeyjum og norður með vesturströnd Noregs.

„Það er óvenjumikil traffík hjá okkur núna,“ segir Guðmundur Rúnar Jónsson, varðstjóri í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. „Við erum að hlusta á Noreg!“

Guðmundur segir þessar sérstöku aðstæður gera það að verkum að VHF-talstöðvar gæslunnar nemi skilaboð úr allt að 600 sjómílna fjarlægð en á venjulegum degi drífi þær ekki í nema 30 til 40 slíkar. 

„Við erum með skip í ferilvöktun alla leið til Stavanger,“ segir Guðmundur sem kveður ástandið vissulega valda nokkrum vandræðum, þótt þau séu ekki stórvægileg.

 „Nú þarf maður að vera duglegur að filtera út hvenær er raunverulega verið að tala við okkur. Það er þó auðvelt að heyra þegar það berst hrein og skýr norska hinu megin frá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert