„Ekki mitt að ákveða það“

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert

Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir það ekki sitt að ákveða hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði áfram formaður flokksins. Hann sitji í umboði flokksmanna og þeir þurfi að svara því sjálfir.

Sig­mund­ur Davíð tók sæti á Alþingi á nýjan leik fyrir viku, eft­ir um sjö vikna frí frá þingstörfum. Sig­mund­ur tók sér frí eft­ir að hann sagði af sér embætti for­sæt­is­ráðherra í kjöl­far af­hjúp­ana Panamaskjal­anna svo­nefndu. 

Hann hefur sagst ætla að halda áfram í stjórnmálum og að vilji hans standi til þess að halda áfram sem formaður Framsóknarflokksins. Hann hyggst nú ferðast um landið og ræða við flokksmenn.

Ásmundur Einar var spurður út í Sigmund Davíð í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hann benti á að áður en Sigmundur steig til hliðar sem forsætisráðherra hefði hann setið sem ráðherra í umboði þingflokksins. Hann sæti hins vegar sem formaður Framsóknarflokksins í umboði flokksmanna.

Það mál væri í ákveðnum farvegi. Flokksmenn þyrftu því sjálfir að svara því hvort þeir vildu hafa hann áfram sem formann. „Ég ætla ekki að blanda mér í það,“ sagði hann.

Ásmundur Einar benti á að Sigmundur Davíð hefði gert margt gríðarlega jákvætt sem forsætisráðherra. Til dæmis hvernig tekist hefði að sækja milljarða króna til kröfuhafanna sem enginn trúði að væri hægt. „Þetta hefði ekki verið gert ef ekki hefði verið fyrir forystu Sigmundar og Framsóknarflokksins,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert